Spurt og svarað

23. janúar 2007

Rembingur, breyttar svefnvenjur og snuð

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég er með eina 3ja vikna dömu. Hingað til hefur allt gengið eins og í sögu. Brjóstgjöf hefur gengið vel og gengur enn vel. Hún hefur sofið vel bæði á daginn og á nóttunni. Hægðir og þvag í góðu lagi. Þyngist vel. Semsagt alveg hreint fyrirmyndarbarn okkur foreldrunum til mikillar gleði. Það er samt þrennt sem við höfum verið að velta fyrir okkur hvort að sé eðlilegt eða ekki. Vonum við að þið getið kannski ráðlagt okkur eitthvað.

  1. Þó svo að stelpan okkar sofi vel þá er mikill rembingur í henni. Þessi rembingur er mest áberandi þegar við erum að leggja hana til svefns, hún er kannski nýbúin að drekka og búin að ropa og er sofnuð og við leggjum hana niður, nokkrum mínútum síðar þá byrjar þessi mikli rembingur í henni. Það tekur hana kannski 10 til 15 mínútur að róa sig niður og hætta þessum rembingi. Hún rembist og rembist og stundum kemur einskonar grát-kvart frá henni. Við höfum ekki verið að taka hana upp því að hún hefur alltaf sofnað eftir smá rembingstíma. Svo byrjar hún aftur að rembast þegar hún er við það að vakna og hefur hún stundum legið í smá tíma með opin augun og verið að rembast og rembast en grætur hvorki né kvartar mikið. Er þessi mikli rembingur í henni eðlilegur? Þó svo að hún kvarti lítið og gráti lítið þegar hún er að rembast að þá finnst okkur erfitt að horfa uppá hana rembast svona mikið, er eitthvað hægt að gera?
  2. Hingað til hefur hún verið eins og klukka hvað svefntíma varðar. Sofið 2-3 tíma á daginn og svo hafa 3-4 tímar liðið á milli á nóttunni. Hún hefur vaknað og drukkið og sofnað strax aftur um kl. 22,01,04,07,10 eftir 10 hefur hún síðan vakið aðeins lengur eftir hverri gjöf og hefur vökutíminn lengst á daginn. Allt hefur verið afskaplega auðvelt og eðlilegt. Síðast liðna daga hefur hún hinsvegar tekið uppá því að sofna um 22 á kvöldin sofa bara til 23 og vaka síðan í 2-3 tíma, á þessum tíma er hún mjög pirruð, vill bara vera í fanginu á okkur, mikill rembingur í henni og með mikla sogþörf en virðist samt ekki vera svöng þar sem hún vill bara totta brjóstið. Eftir að hún er búin að vera vakandi í 2-3 tíma þá er hún orðin svöng aftur og sofnar þá eftir gjöf. Eigum við að reyna að halda henni meira vakandi á daginn til að breyta þessu? Núna vakir hún samanlagt um 5-6 tíma yfir daginn.
  3. Er nauðsynlegt fyrir börn að fá snuð? Ég er búin að lesa á þessari síðu að það sé ekkert nauðsynlegt og búin að lesa um rökin með og á móti. Við höfum ekki látið hana hafa snuð enn þrátt fyrir mikinn þrýsting frá annarri ömmu hennar, henni finnst það alveg hræðilegt að barnið skuli ekki hafa fengið snuð strax því að börn hafa svo mikla sogþörf og slíkt. Mér hefur fundist hún fullnægja alveg sogþörf sinni á mér og hefur okkur ekki fundist nauðsynlegt að gefa henni snuð. Við prófuðum reyndar að gefa henni snuð þegar hún fór að vaka svona sbr. lið 2 en okkur til mikillar gleði þá gretti hún sig bara og spýtti því út. Svo hef ég heyrt að það sé betra fyrir barnið að taka snuð en puttann, er það rétt? Hvað eigum við að gera? Eigum við að halda okkar skoðun að gefa henni ekki snuð á meðan hún þarf þess ekki eða eigum við að reyna að troða því uppí hana núna??

Jæja þetta er orðið ansi langt hjá mér, vona að þið getið eitthvað ráðlagt okkur.

Bestu kveðjur, Anna.

 


 

Sælar!

  1. Varðandi lið 1 - þá ert oft rembingur hjá litlum börnum á fyrstu vikunum eins og þú lýsir með litlu stelpuna þína. Það er hægt að gefa börnum dropa sem heita Miniform - og þeir fást án lyfseðils - en það þarf ekki nema ef barnið er órólegt - þessir dropar eiga að róa meltingarfæri lítilla barna - Droparnir virka á sum börn en ekki á önnur. Meltingarfærin hjá þeim er svo óþroskuð - svo það getur verið mikið álag fyrir þau að melta móðurmjólkina. 
  2. Það spurning hvað veldur hjá henni - það er spurning hvort það séu maga/meltingaróþægindi hjá henni - mér sýnist af því sem ég les hjá þér að það geti verið - frekar en að hún þurfi að vaka meira - annars er þetta svo einstaklingsbundið með svona lítil börn - þau geta vaknað svona upp í nokkra daga og hætt því svo aftur fljótlega.
  3. Með snuð þá finnst mér það vera alfarið ákvörðun foreldranna - hvort barnið nota snuð eða ekki - það er ekki nauðsynlegt að nota snuð - ef barnið er ánægt án þess þá tel ég það bara gott mál.

Með kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. janúar 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.