Rétt snuðnotkun

28.08.2007

Komiði sælar!

Ég er búin að fara yfir allt sem ég finn á síðunni um snuðnotkun en ég finn ekkert sem gæti hjálpað mér. Ég byrjaði að reyna að venja minn á snuð rétt liðlega 5 vikna gamlan. Það hefur ekki gengið vel og nú er ég að fara að spá í að hætta eða fá einhver ráð. Málið er að hann tekur snuðið en mér finnst hann bara taka það þegar hann er svangur. Þýðir varla að bjóða honum það eftir gjöf t.d. Hann sýgur hins vegar snuðið af mikill áfergju, með brett upp á varirnar og hálf opin munn og þegar hann tekur það og smellir í. Fyrir um viku síðan fóru síðan nákvæmlega sömu hljóð að koma þegar hann er á brjóstinu sem sagt smellir og soghljóð? Er snuðið að trufla sogið, á ég að halda áfram að reyna að venja hann á það eða er best að hvíla þetta. Ég svo sem reyndar prófaði ekki einhver tonn af tegundum en prófaði 3 og valdi svo það sem hann virtist oftast taka.

Ég sé af svörunum á síðunni að þið eruð svo sem síður en svo að mæla með snuðanotkun sem ég held að sé líka kannski svolítið ofnotaður tappi en kannski líka ágætt að geta gripið til þess við og við og gera það þá rétt eða eins og rétt og hægt er.

Með þökk fyrir frábæran vef, Hekla.

 


 

Sæl!

Af frásögn þinni að dæma virðist barnið ekki vera æst í snuðið og þegar þú lýsir smellhljóðum sem koma einnig á brjósti þá myndi ég mæla með því að hvíla snuðið, það er allt annað form af sogtækni í gangi þegar snuð er sogið samanborið við brjóstið. Þú getur prófað aftur eftir einhvern tíma ef þú ert ákveðin í að venja barnið á snuð. Þá gæti verið ráð að prófa sig áfram með mismunandi form af túttum, það getur verið misjafnt hvað þau vilja.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. ágúst 2007.