RS vírus

09.03.2007

Góðan dag. Ég vil byrja á að þakka fyrir frábæran vef.

Spurningarnar sem ég hef tengjast þessum hvimleiða RS - vírusi. Ég á 5 vikna gamalt barn og hef verið stressuð yfir þessum blessaða vírusi og þá sérlega þar sem að ég á einnig barn á leikskólaaldri. Vitiði hvort að þessi faraldur sé ennþá í hámarki eða hvort hann sé kannski í rénun? Hef haldið mig heima með barnið undanfarnar 5 vikur og var að velta því fyrir
mér hvort að það væri óhætt að slaka á í sótthræðslunni og leyfa börnum að koma í heimsókn? Jú og fara kannski eitthvað út fyrir heimilið með krílið?

Kær kveðja
Sveitamamman


 

RS vírus sýkingar eru aðeins að minnka en enn eru miklar pestar í gangi þannig að ég myndi ráðleggja þér að vera þolinmóð aðeins lengur.  Auðvitað getur þú farið í heimsóknir þangað sem þú veist að ekki er kvef á heimilinu.  Þar sem þú hefur verið svona passasöm undanfarnar vikur væri leiðinlegt ef barnið smitaðist núna af einhverju.  Þú gætir líka leyft fólki að koma í heimsókn ef það er ekki með kvef og biðja alla að þvo sér vel um hendurnar þegar þeir koma.  Sennilega fer þetta pestatímabil að enda og þar með RS vírusinn.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
09.03.2007.Komdu sæl.