Sérstakar ungbarnadýnur?

12.11.2008

Komið sælar og takk fyrir frábæran vef sem ég hef mikið getað leitað í á meðgöngunni.

Nú áskotnaðist okkur gömul vagga fyrir litla krílið fyrstu mánuðina en ætlum að setja nýja dýnu í hana. Nú kreppir svolítið að okkur (eins og öllum) og okkur býðst 5 cm þykkur svampur sem hægt er að skera út í vögguna og hyggst ég sauma utan um hann og svo setja lak þar yfir. Nú fæ ég bakþanka um að ég sé að gera rétt og sé að spara á röngum stað. Eru ungbarnadýnur eitthvað spes meðhöndlaðar? Gæti ég verið að gera barninu mínu illt með að nota þessa tilsniðnu heimatilbúnu svampdýnu?

Með bestu kveðju, Svampur Sveinsson.


Sæll og takk fyrir að leita til okkar.

Það er í góðu lagi að  nota 5 cm svampdýnu í vögguna fyrir litla krílið ykkar, þó ber að hafa í huga þegar velja skal dýnu í vöggu að:

  • Hún þarf að passa vel í og ekki á að vera hægt að setja fleiri en tvo fingur milli dýnunnar og hliða vöggunnar. Dýnan í vöggunni þarf að vera stöðug og traust. Tempur dýnur og vatnsdýnur eru alls ekki ætlaðar börnum.
  • Hlið ungbarnavöggunnar á að vera a.m.k. 27,5 cm.  Þegar mælt er frá efri brún dýnu skal hæðin upp að hliðarbrún vera a.m.k. 20 cm.
  • Notið ekki plast til að hlífa dýnunni heldur þar til gerð lök („pissulök“).

Ég vona að þetta svari spurningu þinni.  Gangi þér vel að útbúa dýnu fyrir litla krílið.

Kær kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. nóvember 2008.