Einkenni blöðrubólgu á meðgöngu

09.12.2008

Sælar.

Ég er komin 29 vikur með tvíbura og er að spá í hvort ég geti verið komin með blöðrubólgu. Ég hef verið mjög gjörn á að fá blöðrubólgu í gegnum tíðina en ég finn ekki fyrir þessum hefðbundnu einkennum núna. Ég er stöðugt pissandi sem getur skrifast á meðgönguna, ég finn fyrir þrýstingi við upphaf þvagáts sem getur skrifast á meðgönguna, þvagið er dökkt á litinn en er búið að vera þannig alla meðgönguna o.s.frv. Það er samt einhver tilfinning sem ég hef sem ég get ekki lýst og er því með áhyggjur af hvort þetta sé blöðrubólga. Ég er samt ekki búin að finna fyrir þessu í langan tíma, bara 2 daga. Geta einkenni verið lítil sem enginn eða verið svona falin? Hefur lyfjagjöf áhrif á fóstrin?Með fyrirfram þökk.


Sæl og blessuð!

Það er alveg mögulegt að þú sért með þvagfærasýkingu (blöðrubólgu) þó að einkennin séu ekki eins og þú þekkir frá fyrri tíð. Þvagfærasýkingar geta verið lúmskar á meðgöngu og því ætti alltaf að leita til læknis þegar grunur um þvagfærasýkingu á meðgöngu svo hægt sé meðhöndla sýkinguna með sýklalyfjum sé sýking til staðar. Það er vitað að sýkingar geta stuðlað að fæðingu fyrir tímann og því ættir þú ekki að draga það að leita læknis eða að hafa samband við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni. 

Það er alveg óhætt að nota viss sýklalyf á meðgöngu og mjög mikilvægt að meðhöndla sýkingar til að draga úr hættu á fyrirburafæðingum.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. desember 2008.