Smit á hlaupabólu

27.12.2012

Góðan dag og takk fyrir góðan vef sem hefur hjálpað mér að leita margra svara á meðgöngunum og þegar ég hef þurft á að halda með börnin mín. Ég er með lítinn 11 vikna gutta og 3 ára skvísu, núna er hlaupabólan komin á skrið á leikskólanum hennar. Mig langar að vita ef stelpan mín myndi næla sér í hlaupabóluna hvort það geti verið hættulegt fyrir litla guttann minn ef hann skyldi smitast af henni líka? kveðja


Sæl
Ég vona að svarið komi að gagni þó svo seint sé.
Hlaupabóla bráðsmitandi og smitast með snertingu og úðasmiti frá vitum. Meðgöngutíminn getur verið 10-21 dagur áður en einkenni koma fram svo sá sem er smitaður getur smitað löngu áður en einkenni koma fram. Mikilvægast er að gæta að hreinlæti, þá aðallega handþvotti hjá dóttur þinni þegar hún kemur heim af leikskólanum og ef til vill að skipta um föt á henni til að forðast smit til litla barnsins.
Samkvæmt þeim heimildum sem ég fann um hlaupabólu í ungum börnum fá flest heilbrigð börn sem eru 10 daga og eldri væg einkenni. Þó verður að fylgjast vel með þeim, passa að þau drekki vel og gefa þeim hitalækkandi (parasetamol) eftir þörfum. Þá er eindregið hvatt til brjóstagjafar ef hætta er á smiti þar sem mótefni eru í mjólkinni sem geta verndað þau. Flest börn fá einkenni í 7-10 daga en í fáeinum tilfellum þarf að gefa veiruhemjandi lyf sem minnka einkenni og flýta bata því ætti að ráðfæra sig við lækni þegar ung börn smitast af hlaupabólu.
Gangi þér vel.

Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. desember 2012