Spurt og svarað

16. ágúst 2004

Snuð

Hæ, hæ!

Dóttir mín er 10 daga og hefur þessa rosalegu sogþörf. Hún vill bara hanga á brjóstinu og sjúga og fær illt í magann og verður óróleg þegar hún er búin að drekka of mikið. Hún var 3.295 grömm við fæðingu en er orðin 3.600 grömm í dag sem þýðir að hún er sko alveg að fá nóg. Er mér óhætt að gefa henni snuð fyrst að brjóstagjöfin er komin vel í gang ég fæ engar stíflur, sár eða neitt annað vesen.

Takk takk.

.............................................................

Sæl og blessuð.

Það er mjög gott að barnið þitt skuli hafa svona mikla sogþörf. Sogþörf er jú ekkert annað en þörf fyrir næringu, enda virðist hún dóttir þín ætla að fara vel af stað í þyngdaraukningu. En það gefur þó ekki tilefni til þess að gefa snuð. Þú talar um að það sé ekkert vesen með brjóstagjöfina, engin sár eða stíflur. Það er akkúrat vegna þess að barnið fær ekki snuð. Bíddu með að gefa snuð þar til betri reynsla er komin á brjóstagjöfina (þar til barnið er a.m.k. 3ja vikna). Þannig tryggirðu barninu þínu mesta möguleika á góðri þyngdaraukningu, færð örugglega ekki sár og nær örugglega ekki stíflur.

Þú talar um að barnið sé órólegt og fái illt í magann eftir gjafir. Þá gæti verið betra að líta á gjafamynstrið í heild. Börn geta fengið magaónot af of mikilli formjólk. Þannig að ef þú ert t.d. að gefa bæði brjóst í gjöf gæti verið reynandi að gefa bara annað (tímabundið) eða ef þú ert að gefa stuttar gjafir (5-15 mín.) þá er til bóta að reyna að lengja þær. Athugaðu líka hvað þú gerir við barnið eftir gjafir. Ertu að reyna að leggja það frá þér þegar það er í grunnum svefni. Þá er oft að börn rífa sig upp með sárum gráti. Það er sjaldgæft að börn fái illt í magann á þessum aldri vegna þess að þau drekki of mikið (ef þau eru bara á brjósti). Þau hafa þá lausn í þeirri stöðu að gubba upp umframmagni mjólkur og þau nota þá leið óspart.
Þannig að þér er óhætt að trúa því að „rosaleg“ sogþörf er bara „rosaleg“ þörf fyrir næringu og eins og ég segi stundum við konurnar í fræðslustundunum mínum. „Það yrði upplit á ykkur ef þið væruð svangar og væru afhentir tómir gafflar til að naga“. En það virðist almennt viðurkennt að stinga sílikonhnúð upp í svöng börn.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. ágúst 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.