Spurt og svarað

12. janúar 2006

Stóð á öndinni!

Sælar ljósmæður!

Snemma í morgun þegar við vorum öll sofandi, ég reyndar bara hálf sofandi þá gengur upp úr minni 4 vikna gömlu, mjólk síðan um nóttina. Mjólkin var þykk en hafði greinilega farið upp í nebba svo hún stóð á öndinni! Mér fannst hún endalaust lengi að ná andanum svo ég ríf hana upp og strýk á henni bakið en hún var að hnerra og gráta til skiptis með erfiðismun því greinilegt var að mikið slím var í nebbanum (hún er ekki kvefuð)! Á endanum komst andardrátturinn í eðlilegt horf en ég náði ekki að sofna og var alltaf að fylgjast með henni hvort að hún andaði ekki því ég hef sjaldan orðið eins hrædd (er enn að jafna mig). Er eitthvað sem ég get gert þegar þetta kemur fyrir? Tek það fram að hún ælir mjög sjaldan og það gengur mjög sjaldan mjólk upp úr henni. Þegar þau standa svona á öndinni er ekki hætta á súrefnisskorti hjá þeim?

Kveðja, Hildur.

..................................................................................................

Komdu sæl Hildur!

Það er eðlilegt, að þú skulir hafa orðið hrædd, þegar þér fannst barnið þitt ekki ná andanum almennilega. En eins og oftast gerist jafnaði stúlkan sig af sjálfsdáðun og náði að hnerra slíminu út úr nefinu sínu, sem opnaði þannig öndunarveginn aftur. Ef nefið stíflast hnerra þau og grípa oftast andann með munninum í staðinn. Lítil börn eru dugleg að bjarga sér í svona aðstæðum. Það sem líklega hefur gerst er, að stúlkan hefur gúlpað upp litlu magni af mjólk útafliggjandi, sem hefur farið upp í nefkokið á henni og setið þar. Síðan hefur safnast slím frá nefinu utan um mjólkina, sem að lokum stíflaði nefið. Það er lítið hægt að gera í þessu annað en halda ró sinni og reyna að fyrirbyggja þetta með því að láta barnið ropa eftir gjöf,  því líklega hefur loft valdið þessu gúlpi hjá henni. Það er gott að lyfta þeim upp ef þetta gerist og ef þú sérð eitthvað í nösunum má reyna að hreinsa það burt með bréfþurrku eins og verið sé að snýta barni eða hreinsa það með bómullarpinna. Það krefst þó lagni, svo bjakkið ýtist ekki lengra inn í nefið. Best er að nota mjóa bómullarpinna. Það þarf að veiða bjakkið með pinnanum og draga það út úr nösinni með því að snúa upp á pinnann. Einnig eru til sérstakar nefsugur með gúmmíbelg á til að hreinsa úr nefi. Aðrir útvega sér munnsog, sem hægt er að kaupa í apóteki og hreinsa nefið með því að sjúga varlega með mjúkri gúmmíslöngu það sem sést í nösunum. Ef barnið gúlpar og stendur á öndinni, þarf oftast ekkert að gera annað en vera róleg, taka barnið upp og horfa á það kyngja, hnerra, anda og gráta. Það er ekki fyrr en og ef, barnið fer að blána og/eða fölna og verða máttlaust, sem ástæða er til að blása lofti í barnið og hringja síðan á sjúkrabíl (112). Það er ekkert sem bendir til þess, að það komi fyrir hjá ykkur, þar sem barnið réð sjálft við þessar aðstæður og gúlpar sjaldan. Yfirleitt er ekki hætta á súrefnisskorti ef börnin blána ekki eða missa meðvitund. Svona mál er líka sjálfsagt fyrir þig að ræða við hjúkrunarfræðinginn þinn í ungbarnaverndinni.

Gangi þér vel!

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. janúar 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.