Svefn og svefnvenjur

11.03.2009

Góðan dag.

Mig langar að spyrja um tvennt, annars vegar lausan svefn og hins vegar svefnvenjur. Ég á 10 vikna gamla dóttur sem fékk gulu og var því afskaplega löt fyrstu vikurnar. Eftir að hún náði sér af henni fór hún að eiga erfitt með að sofna yfir daginn og tekur oft stuttar kríur og vaknar við minnsta þrusk. Tvo daga í röð í síðustu viku svaf hún t.d. í ca. 2 tíma í senn sinn hvorn daginn. Þess ber að geta að hún sofnar um miðnætti og sefur til 5 eða 6 til að drekka, vaknar svo aftur til að drekka um 8 eða 9 .  Eftir það taka kríublundarnir við til miðnættis. 

Svo er ég að velta fyrir mér hvenær það sé ráðlagt að byrja að venja börn á að sofa í sínu rúmi. Ég er byrjuð á því en er með samviskubit yfir því þar sem hún er svo lítil ennþá og langar ekkert meira en að knúsa hana og leyfa henni að finna fyrir mér. Er svo hrædd um að þetta hafi áhrif á nándina á milli okkar og að hún verði súr út í mig. Ég er smeyk við að þurfa að venja hana af því að sofna á brjóstinu (sem hún gerir stundum yfir daginn) eða í rúminu hjá okkur. Er þetta tímabær aðlögun?

P.s. þakka fyrir þennan frábæra vef.


Komdu sæl

Það er mjög misjafnt hversu mikið börn þurfa að sofa og venjulega hefur maður ekki áhyggjur af svefni barna á daginn ef þau sofa vel á nóttunni, og dóttir þín gerir það svo sannarlega.  Þetta breytist líka mjög ört á fyrsta árinu. 

Þú ert alveg á réttum tíma með að fara að kenna henni ákveðnar svefnvenjur.  Um þriggja mánaða aldur eru börn komin með þann þroska sem þarf til að læra að sofna sjálf of hugga sig sjálf í sínu rúmi.  Það er líka mælt með því að aðskilja matartíma og svefn þannig að hún á helst ekki að sofna á brjóstinu.  Ef hún gerir það ættir þú að strjúka henni um kinn þegar þú leggur hana niður þannig að hún opni augun og átti sig á því að hún er í sínu rúmi og geti þá farið að sofa þar sjálf.  Tengslin rofna ekki á milli ykkar við það, þú ert enn með hana á brjósti, talar við hana og leikur þegar hún er vakandi og svo framvegis.  Börnum líður líka best ef ákveðnar reglur og festa er til staðar.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur. 
11 mars 2009.