Spurt og svarað

28. júlí 2005

Svefnstellingar ungbarna

Góðan dag!

Ég eignaðist litla dömu fyrir 8 dögum síðan og ljósmóðirin sem tók á móti stelpunni bannaði mér algjörlega að leggja stelpuna á bakið vegna þess að ef að það kæmi slím í kokið þá gæti hún ekki losað sig við það og svo var ég að lesa á síðunni hjá ykkur að ég ætti að leggja hana á bakið til að forðast vöggudauða. Nú bara spyr ég, hvað á ég eiginlega að gera? Endilega reynið að svara mér sem fyrst.

Takk, takk.

.............................................................................

Sæl og til hamingju með litlu dömuna!

Eitt af markmiðum okkar sem stöndum að þessari síðu er að reyna að minnka misvísandi skilaboð til verðandi foreldra og nýbakaðra foreldra með því að hafa áreiðanlegar upplýsingar sem eru öllum aðgengilegar. Við vitum að það getur verið mjög óþægilegt að fá misvísandi upplýsingar frá heilbrigðisstarfsfólki því þá veit fólk ekki hverju það á að trúa. Og nú hefur þú einmitt lent í þessu. Ráðleggingar um svefnstellingar barna hafa verið að breytast á undanförnum árum og foreldrar tala einmitt um að ráðleggingarnar hafi verið að breytast á milli barna.

Ég hef tekið eftir því að hér á landi er ekki mikill áróður fyrir því að leggja börn til svefns á bakið eins og við mælum með hér á síðunni og því kemur mér ekki á óvart að þú hafir fengið þessar ráðleggingar. Skrif okkar hér á síðunni um svefnstellingar ungbarna er liður í því að upplýsa foreldra og heilbrigðisstarfsfólk um þær ráðleggingar sem mælt er með í dag. Í greininni er stuðs við glænýjar og nýlegar heimildir. Í Bandaríkjunum hefur verið notað slagorðið „put them back to sleep“ til að minna á að leggja þau á bakið. Í Noregi hafa verið gefnar samfellur með áletruninni „denna siden op“, framan á samfellunni til að leggja áherslu á að leggja þau á bakið.

Ég vona að þetta skýrið málið og styrki þig í því að leggja dömuna á bakið.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. júlí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.