Á að sleppa því að lyfta þungu í byrjun meðgöngu

31.01.2009

Sæl!

Mig langar að vita hvort það sé rétt að kona sem er gengin 5-6 vikur eigi að sleppa því að lyfta þungu og halda minna á barninu sínu sem hún á fyrir til að minnka líkur á að missa fóstur? Getur þetta haft mikið að segja? Maður hefur oft heyrt talað um að lyfta ekki þungu ég hélt þetta væri bara gamalt og að kona mætti nú alveg halda á 18 mánaða gömlu barni sem er vön því.

Kveðja, Mútta.


Sælar!

Kona sem gengin er 5-6 vikur á ekki að óttast það að hún missi fóstur við það að halda á 18 mánaða gömlu barni. Fósturlát tengjast þessu ekki á neinn hátt. Það er auðvitað alltaf rétt að hlusta á líkamann og ef hún þreytist mikið við þetta er rétt að takmarka það eins og hægt er og mikilvægt að beita líkamanum rétt.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
31. janúar 2009.