Svefnvandamál tvíbura

09.11.2009

Sælar ljósmæður!

Við erum með 14 vikna tvíbura, stúlku og dreng. Þau eru með mjög ólíkar svefnvenjur. Á kvöldin leggjum við hana í rúmið og hún sofnar og sefur í u.þ.b. 8 klst. (sem er eins og eftir pöntun!). Hann mótmælir alltaf þegar hann er lagður í rúmið og grætur. Og til að hann veki ekki tvíburasystur sína og aðra eldri systur í næsta herbergi þá tökum við hann fram og höfum hann hjá okkur (sem við vitum að er algjör vitleysa). Yfir nóttina vaknar hann á u.þ.b. tveggja tíma fresti. Hann er oft með stíflað nef og það vekur hann. Hann sefur alltaf vel í vagninum á daginn og bílstólnum. Til að taka á þessu þarf sennilega nokkur kvöld í „þjálfun“. Hvað mynduð þið ráðleggja okkur að gera við tvíburasysturina á meðan? Eigum við að hafa hana í öðru herbergi á meðan við venjum hann við að sofna og sofa eða eigum við að hafa hana í sama herbergi og láta hann trufla hana?

Kveðja, G.


Sæl - og til hamingju með tvíburana þína.

Það er alltaf erfitt að eiga við svefnvandamál ungbarna. Ég held að það væri best í ykkar stöðu að láta litlu systur hans í annað herbergi á meðan að þið venjið hann við að sofna og sofa í rúminu sínu. Hann er núna búinn að venjast því að vera í selskap þegar hann á að sofna - og það getur tekið á að snúa því við. En það er hægt að venja þau á að sofna sjálf í sínu rúmi og taka þetta skref fyrir skref. Það eru mjög góðar leiðbeiningar í bókinni: Draumaland - svefn og svefnvenjur barna frá fæðingu til tveggja ára. Þú getur kannski fengið hana lánaða í bókasafninu, þetta er nýleg bók og höfundur er hjúkrunarfræðingur sem sinnir líka svefnráðgjöf barna.

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. nóvember 2009.