Spurt og svarað

29. nóvember 2004

Svefnvenjur ungbarna

Hæhæ og takk fyrir frábæran vef :)

Mig langaði að vita hvort það sé hægt að fara að venja 5 vikna gamalt barn á góðar svefnvenjur eða hvort það sé allt of snemmt? Málið er að sonur minn er kominn í rútínu sem er alveg afleit að því leytinu til að hann vaknar alltaf um 2 leytið á nóttunni til að drekka og er þá vakandi í 2-3 tíma í einu. Að öðru leyti er rútínan fín, hann drekkur 5-7 sinnum á sólarhring, þyngist vel og sefur lengur á nóttinni (þegar hann loksins sofnar) og á morgnana heldur en á daginn... Bara ef hann gæti farið strax að sofa eftir gjöfina kl 2 þá væri þetta fínt.  Ég hef reynt að fá hann til að vera meira vakandi á daginn til að hann sofi frekar á næturnar en það hefur ekki tekist. Hann sefur bara venjulega lengi á sólarhring held ég, sefur ca 16-18 tíma á sólarhring en vakir bara á vitlausum tíma.

Svo var ég líka að spá í hvort það sé eðlilegt að barnið sofni helst ekki nema í fanginu á okkur foreldrunum eða í rúminu okkar? Hann sefur stundum uppí hjá okkur en stundum í rúminu sínu en ég vil helst venja hann á að sofa bara í sínu rúmi. Málið er að hann hefur verið með magakveisu og þegar hann er óvær hefur okkur tekist að róa hann með því að hafa hann í fanginu eða uppí hjá okkur, en ef hann sofnar í fanginu á okkur þá leggjum við hann í rúmið sitt og hann sefur oftast alveg þar.

Mér finnst svosem ekkert stórmál þá barnið sofi stundum uppí hjá okkur en vil endilega fá hann til að sofna strax aftur eftir næturgjöfina.

Takktakk :)

                          ...............................................................

Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Fyrstu vikurnar gera ungbörn ekki greinarmun á nótt og degi.  Svefnvenjur breytast mjög ört fyrstu vikurnar og mánuðina og foreldrar þurfa að aðlaga sig svefnvenjum barnsins.  Venjulega er talið að það sé ekki fyrr en um þriggja mánaða sem foreldrar ættu að fara að huga að því að kenna barninu að sofna sjálfu, sofa í sínu rúmi og sofa á nóttunni. 

Ein leiðin til að ungbörn sofi meira á nóttunni er að legja tímann milli gjafa á daginn.  Ef hann er á brjósti gætir þú reynt að hafa alltaf fjóra tíma milli gjafa á daginn (ekki lengra) það lengir líka tímann milli gjafa á nóttunni.  Eins gætir þú reynt að halda honum vakandi á kvöldin og/eða vakið hann upp þegar þú ferð að sofa og gefið honum þannig að hann sofi lengur fyrripart nætur.  Gott getur verið að baða hann á kvöldin áður en hann fer að sofa þannig að hann sé þreyttur fyrir nóttina.  Það er líka gott að venja börn á það að þau fái bara lágmarksþjóustu á nóttunni.  Það þýðir að þú tekur hann upp og leggur hann á brjóst, þú ættir ekki að horfast í augu við hann eða tala við hann.  Þegar hann er búinn að drekka legðu hann þá aftur í rúmið. 

Eftir þriggja mánaða aldur getur þú svo farið að nota þriggja mínútna regluna en það er að hann er lagður í rúmið sitt, fær snuðið og sængin breidd ofan á hann en eftir það ferð þú út úr herberginu og kemur ekki inn aftur fyrr en eftir þrjár mínútur.  Þá gerir þú bara það sama, leggur hann til og gefur snuð og sæng og ferð svo út aftur.  Þannig læra börn að rúmið er til að sofa í.

Börn eru fljót að  venjast öllu mögulegu og þar á meðal að sofna bara hjá mömmu og pabba.  Það er ósköp gott að vera þar sem maður finnur fyrir mömmu og pabba, er ruggað í svefn, heyrir hjartslátt og andardrátt, finnur lykt o.s.frv.  Það getur líka verið erfitt að venja börn á að sofna í rúminu ef þau eru kveisubörn og láta ekki huggast nema í fanginu á mömmu og pabba.  Smám saman lærið þið að þekkja muninn á því hvort eitthvað er virkilega að þegar barnið grætur eða hvort hann er bara móðgaður yfir því að fá ekki sömu þjónustu og áður, þegar hann er lagður í rúmið sitt.

Það er hægt að venja 5 vikna gömul börn á að sofna sjálf alveg eins og þau venjast á að sofna hjá mömmu og pabba.   Það tekur nokkra daga að venja börn á nýjar reglur en mikilvægt er að  gera alltaf eins og ekki gefast upp. 

Gangi ykkur vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir, hjúrkrunarfræðingur og ljósmóðir.  29.11.2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.