Spurt og svarað

12. nóvember 2004

Sveppasýking í munni ungbarna

Mig langar svo að spyrja út í sveppasýkingu í munni ungbarna, ég hef lesið allt sem er á síðunni ykkar og hef fundið nokkur svör við spurningum mínum en það sem brennur á mér er af hverju er barnið mitt með þetta, gerði ég eitthvað rangt? Ég var með sveppasýkingu í leggöngum á seinni hluta meðgöngu en það var meðhöndlað og lagaðist. Getur samt verið að barnið hafi smitast í fæðingu?

Dóttir mín hefur verið ergileg undanfarna daga og vill drekka stutt og helst naga á sér hendurnar, getur verið að sveppasýkingin sé að hrjá hana, getur verið að hana svíði í munninn?
Ég fékk mycostatin mixtúru til að meðhöndla þetta hjá okkur, hve langan tíma tekur að vinna á sýkingunni?

Með fyrirfram þökk :)

.......................................................................

Sæl og blessuð.

Þú hefur áhyggjur af sveppasýkingu barnsins sem von er. Leiðindafyrirbæri þessir sveppir. Þó eru þetta eðlilegir fylgifiskar okkar allra og sambúðin gengur bara mjög vel í allra flestum tilfellum. Yfirleitt tekst sveppum að fjölga sér og valda einkennum við minnkaðar varnir líkamans (vegna veikinda, eftir fæðingu, sterk efni borin á húð o.fl.) eða kjöraðstæður sínar (hiti,raki, myrkur) og æti (sykur).

Nei þú gerðir ekkert rangt. Sveppir í leggöngum á meðgöngu hafa ákveðna tengingu við sveppi á geirvörtum mæðra og í munni barna eftir fæðingu en hvernig þau tengsl eru er ekki ljóst.

Nei barnið smitaðist ekki í fæðingu.

Nei, sveppir eru ekki taldir „hrjᓠbörn þ.e. það hefur ekki tekist að merkja viðbrögð hjá þeim sem sýna að þau finni fyrir sýkingunni á einn eða neinn hátt. 

Stundum jafnar líkaminn sig sjálfur á þessari offjölgun sveppa en í flestum tilfellum svona eftir fæðingu þarf hann aðstoð.

Mixtúra Mycostatin er það lyf sem oftast er byrjað á og hefur gefist mjög vel. Það er borið á geirvörturnar fyrir og eftir hverja brjóstagjöf og dreift um munn barnsins eftir hverja brjóstagjöf í 14 daga. Þessir 3 miklu snertipunktar eru yfirleitt meðhöndlaðir samtímis því annars er hætta á endalausu endursmiti. Fyrir utan lyfjameðferðina er tekinn mikill skurkur í hreinlæti með áherslu á handþvott og að sjóða flest sem snertir vörtur og munn barns á hverjum degi. Oftast er sýking upprætt eftir 14 daga en stundum þarf áframhaldandi meðferð í aðra 14 daga og einstaka sinnum í 3ja sinn. Þá er stundum bætt við annarri meðferð eins og þurfa þykir. Ef þú hefur áfram áhyggjur skaltu endilega hafa samband við brjóstagjafaráðgjafa.

Með von um sveppavæna framtíð,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi ,
12. nóvember 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.