Spurt og svarað

23. október 2009

Svínaflensa og ungbörn

Sælar ljósmæður!

Mikið þakka ég fyrir tilvist þessarar heimasíðu. Það hefur reynst mér bæði gaman og gagnlegt að nýta mér hann á meðgöngunni.Við erum við einn nýfæddan gaur. Og í ljósi þess að við erum í miðjum heimsfaraldri inflúensu eru við með nokkrar spurningar.

Okkur skilst að börn yngri en sex mánaða megi ekki bólusetja. Er þetta rétt og hverju sætir? Er ef til vill æskilegast að sneiða hjá margmenni fyrstu vikurnar og mánuðina. Er t.a.m réttlætanlegt að takmarka heimsóknir og banna fólki að halda á snáðanum?

Hvernig eru ungbörn yfir höfuð í stakk búin að berjast við þessa flensu, fái þau hana? Er hún ekki stórhættuleg fyrir lítil börn? Annars vil ég að lokum þakka fyrir þá fagmennsku sem einkennir þennan vef.

Kveðja, Áhyggjufullur pabbalingur.


Sæll og blessaður!

Jú, þetta er rétt - það má ekki bólusetja börn innan við 6 mánaða. Ástæðan sem gefin er fyrir því að bóluefnið hafi ekki verið rannsakað á svona ungum börnum og því þykir ekki rétt að bólusetja þau. Það er ekki vitað hvort Svínaflensan leggist verr á þennan aldurshóp en annan en sem betur fer fá flestir frekar væg flensueinkenni enn sem komið er.

Nýfædd börn eru með óþroskað ónæmiskerfi og það ætti alltaf að varast að vera með þau í margmenni og þar sem veikindi eru. Það er auðvitað erfitt að halda fólki alveg frá nýfæddum börnum en nú er sérlega mikilvægt að barnið og fjölskylda þess umgangist ekki fólk sem er með einkenni um flensu. Það er gott að hafa það sem reglu að fólk þvoi sér um hendur eða hreinsi hendur með handspritti áður en komið er við barnið.

Hér á vefnum birtist frétt þann 3. ágúst 2009: Brjóstagjöf ungbarna besta vörnin gegn Svínaflensu þar er fjallað nánar um Svínaflensu og ungbörn.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
23. október 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.