Spurt og svarað

20. mars 2008

Sykurfall nýbura

Góðan dag, takk fyrir ómetanlegan vef.

Ég er komin 35 vikur og er þetta fjórða meðganga en önnur þar sem ég hef fengið meðgöngusykursýki.  Í fyrri meðgöngu stjórnaði ég alveg sjálf með mataræði en nú er ég  á insúlíni og gengur upp og ofan að halda sykrinum niðri. Ég er i kjörþyngd og hef bara bætt á mig u.þ.b.7 kg á þessari meðgöngu.  Ég hef áhyggjur af því að ef þetta gengur svona illa að stjórna sykrinum þótt ég sé á insúlíni (erum að prófa aðra gerð núna og er í vikulegu eftirliti) hvaða áhrif þetta hafi á barnið fyrir utan stærð. Enn sem komið er er litli kútur alveg í eðlilegu stærðarhlutfalli svo ekki virðist þetta hafa haft ennþá áhrif á hann. Er hætta á að barn fái alvarlegt sykurfall í fæðingu eða gerist það einungis eftir fæðingu eftir að klippt hefur verið á naflastreng?  Síðast var stelpan mín lág en fékk strax þurrmjólk og fór upp og hélt sig þar.  Ég las að barn gæti fallið í dá og er alveg miður mín eftir þá lesningu.  Eru dæmi þess að ef svona illa gengur að stjórna sykrinum að konur séu settar fyrr af stað en annars. Ég fer í gangsetningu á 39 viku samkvæmt síðustu skoðun.

Vonandi er þetta skiljanlegt hjá mér, er bara með smá áhyggjur.

Bestu kveðjur, Ia.Sæl og blessuð!

Þegar verið er að ákveða gangsetningu er lagt mat á það hvort það sé heilsu móður og/eða barns fyrir bestu að barnið fæðist fyrr eða síðar svo ég get ekki svarað því hvort þú yrðir sett fyrr af stað út af þessu vandamáli en finnst það frekar ólíklegt.

Þegar kona er með sykursýki á meðgöngu þá er eins og þú veist lykilatriði að hafa góða stjórn á blóðsykrinum því ef blóðsykur móðurinnar er hár þá verður blóðsykur barnsins einnig hár og þá verður aukin framleiðsla á insúlíni í líkama barnsins. Insúlín er vaxtarhormón þannig að aukin framleiðsla á því stuðlar að auknum vexti barnsins í móðurkviði. Þegar barnið svo fæðist og klippt hefur verið á naflastrenginn er ákveðin hætta á blóðsykurfalli. Hættan er meiri ef blóðsykur barnsins hefur verið hár rétt fyrir fæðingu því þá hefur insúlínframleiðslan einnig verið aukin og eftir fæðingu þegar barnið fær ekki lengur næringu frá móður sinni er líkaminn samt á fullu að reyna að lækka blóðsykurinn.

Eftirlit með sykursjúkum konum á meðgöngu og þeim sem þróa með sér meðgöngusykursýki er mjög gott hér á landi. Þú ert greinilega í góðum höndum og mikilvægt að verið sé að reyna að ná tökum á blóðsykrinum hjá þér. Þegar þú svo kemur í fæðingu, hvort sem þú verður gangsett eða ferð sjálfkrafa í fæðingu þá verður fylgst sérstaklega vel með blóðsykrinum hjá þér og allt gert til að halda honum innan eðlilegra marka í fæðingunni. Eftir fæðinguna er svo fylgst vel með barninu þínu og gripið inn í með þurrmjólkurgjöf eða sykurlausn í æð ef þurfa þykir. Það er vissulega fræðilegur möguleiki á því að barn missi meðvitund vegna þess að blóðsykur sé of lágur en það eru afar litlar líkur á því þegar eftirlitið er eins gott og við þekkjum. Nú ef svo illa færi þá væru læknar og ljósmæður fljót að bregðast við svo þannig ástandi.

Vona að þetta rói þig aðeins. Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðngur,
20. mars 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.