Tengsl vöggudauða og nikótínuppgufunar af húð

23.01.2013
Komið sæl.
Ég fékk þær leiðbeiningar að betra væri fyrir ungabarnið mitt að vera ekki í fangi fólks sem hefði reykt síðustu tvær klukkustundirnar vegna aukinnar hættu á vöggudauða. Það væri áframhaldandi uppgufun á nikótíni frá húðinni sem gæti haft áhrif á öndun barnsins, hægt á andadrættinum og valdið vöggudauða. Er eitthvað til í þessu? Og ef svo er, er þá nóg að setja hreinsispritt á handleggi, bringu og háls reykingamannsins áður en hann heldur á barninu?
Kv. Eva
Sæl Eva
Enn hefur ekki fundist nákvæmlega hver ástæða vöggudauða er, orsökin er margþætt en vitað er að reykingar móður sem og óbeinar reykingar auka áhættuna. Talað er um að reykingar í umhverfinu þar sem barnið býr í sé talinn áhættuþáttur þar sem efni í sígarettureyknum geti sest á húsgöng og verið virk í einhverjar vikur.
Á vef landlæknisembættisins er bæklingur um börn og óbeinar reykingar sem ég vísa í.
http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item11931/version7/Born_og_obeinar_reykingar.pdf
Hvergi sé ég talað um leifar á húð eða úr andadrætti en mér þykir það ekki ólíklegt. Best er trúlega að viðkomandi þvoi sér vel um hendur og andlit til að losna við efnin úr sígarettureyknum.
Enn og aftur segi ég þó að orsök vöggudauða er margþætt en samkvæmt ráðleggingum landlæknis má gera ýmislegt til að minnka líkurnar: sjá bækling um forvarnir gegn skyndidauða ungbarna.

Gangi ykkur vel


Kveðja,
Margrét Unnur Sigtryggsdóttir,
Hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
23. janúar 2013