Tunguhaft

25.12.2004

Sælar

Er hugsanlegt að tunguhaft geti valdið pirringi við brjóstgjöf?  Dóttir mín er með frekar mikið tunguhaft og ég hef heyrt að það sé ekki fjarlægt fyrr en við tveggja ára aldur en hún er þriggja mánaða núna.  Hún er hins vegar oft pirruð á brjósti og gefst oft upp grátandi eða hafnar brjóstinu.  Væri ekki réttara að fjarlæga tunguhaftið núna frekar en að bíða til tveggja ára?

Kveðja, Sunna.

.............................................................................

Sæl og blessuð Sunna.

Mér finnst ólíklegt að tunguhaft valdi pirringi hjá dóttur þinni en það er kannski ekki útilokað. Ég myndi í þínum sporum leita annarra skýringa á pirringi. Kannski eru gjafirnar á náttúrulegan hátt að styttast á meðan þú reynir að halda þeim í sömu lengd. Það myndi líka pirra mig ef ég væri barn.

Aðalvandamál frá mínum bæjarhól séð í tengslum við tunguhaft er að börnin særa vörtur mæðra sinna í gjöfinni því tungan nær ekki á réttan hátt utan um vörtuna og þær eru í stöðugum vanda vegna verkja í gjöf og/eða opinna sára á vörtum. Ég veit ekki alveg hvað þú átt við með „frekar mikið“ tunguhaft. Annaðhvort er barnið með tunguhaft sem truflar það við næringu og þá þarf að klippa það eða tunguhaftið er svo lítið að það er ekki ástæða til að gera neitt í því. Það teygist smám saman með tímanum.

Tunguhaft sem þarf að klippa er best að klippa við fyrsta tækifæri. Best er ef þau eru klippt á fyrstu dögunum eftir fæðingu. Það veldur minnstu verkjunum og barnið er fljótt að jafna sig. Þá er líka búið að laga brjóstagjöf sem er í flestum tilfellum á leiðinni í hundana.

Ég get ekki ímyndað mér hvar þú hefur heyrt um að fjarlægja skuli tunguhaft við 2ja ára aldur. Það hefur kannski verið erlendis. Það er alltof seint. Það eru ekki til nein rök fyrir því að bíða. Þannig að ef um tunguhaft er að ræða skaltu drífa þig til barnaskurðlæknis eða barnalæknis hið fyrsta.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
24. desember 2004.