Spurt og svarað

28. janúar 2005

Tveggja vikna pelabarn

Ég er með einn 2ja vikna sem tekur illa eða alls ekki brjóstið.  Málið er að hann fór á vökudeild eftir að hann fæddist og fékk þar bæði pela og snuð og ég gat ekki sett hann á brjóst fyrr en daginn eftir. Vegna þessa fór mjólkurframleiðslan frekar hægt af stað þannig að hann fékk ábót úr pela til að byrja með.  Nú er svo komið að ég mjólka vel en hann vill frekar pelann.  Hvað er til ráða?  Ég er farin að pumpa mig í pela og gefa honum þannig, er eitthvað sem ég get gert til að fá hann til að taka brjóstið?

........................................................................

Sæl og blessuð.

Mér finnst nú alls ekki fullreynt með brjóstagjöf með 2ja vikna barn. Mæður eru oft að vinna að því að koma barni almennilega á brjóst í 4 vikur eða lengur. Mér þykir leitt að vökudeildardvölin hafi ruglað hann svona hressilega í ríminu en það er ekki óalgengt hjá vökudeildarbörnum.

Meirihluta mæðra tekst þó með mismikilli vinnu að snúa þróuninni við eins og ég segi á næstu vikum. Þetta er ekki spurning um að hann „vilji“ frekar pelann. Hann er bara orðinn vanur honum og veit að það rennur hratt úr honum. Að sjúga túttu er líka afar auðvelt.
Barnið „vill“ sjúga brjóst. Það fer betur í munni og lykt og bragð eru betri. Það er hins vegar svolítið erfiðara fyrst. Þessu má líkja við að þú sért orðin alvön að borða með gaffli en eru svo réttir prjónar til að borða með. Það gengur mjög illa fyrst, þú nærð litlu í einu, máltíðin tekur langan tíma og stutt í pirringinn. En fljótlega fer að ganga betur og því oftar og lengur sem þú æfir þig því betur gengur. Þannig að þér er óhætt að taka pelann út og bjóða bara brjóst. En vertu viðbúin að fyrstu máltíðirnar taki langan tíma og verði erfiðar. Taktu á þolinmæðinni og bjóddu brjóstið oft, alltaf áður en barnið er orðið reitt. Hafðu barnið mikið upp við þig og kúrðu með því.

Það er auðvitað engin lausn að pumpa brjóstin og setja mjólkina á pela. Það er fyrir það fyrsta tvöföld vinna fyrir þig og mjólkurframleiðslan vill fljótt minnka vegna of lítillar örvunar frá barni. Það er of stutt reynsla komin á brjóstagjöf eftir fæðingu.

Hvað þú getur gert til að fá barnið til að taka brjóstið er t.d. að bjóða því brjóstið við fyrstu svengdarmerki. Ekki bíða til að vera viss og aldrei bíða þar til barn fer að gráta (grátur er síðasta svengdarmerkið). Koma mjólkurrennslinu af stað með því að mjólka smá með fingrunum áður en barnið er lagt á. Nota andlega þætti sem hjálpa eins og þægilegt umhverfi, róandi tónlist, milda birtu og slökun. Það skiptir líka máli að nota góð handtök og þægilegar gjafastellingar. Stuðningur við brjóst og barn þarf að vera góður svo barn finni til öryggis. Svo væri ekki verra að hafa einhvern við hliðina á þér sem segði í sífellu „þetta er gott hjá þér“, „þetta gengur betur núna“ eða „þú getur þetta alveg“.

Með bestu óskum um ánægjulega brjóstagjöf,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. janúar 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.