Umgangspest á heimili nýbura

22.11.2006

Sæl!

Þannig er mál með vexti að maðurinn minn er kominn með umgangspest sem lýsir sér í magaverk, niðurgangi, lystarleysi ofl. Ég hef ekki veikst ennþá. Hvernig eigum við að hegða okkur til að barnið veikist ekki?

p.s. barnið er á brjósti.

 


 

Sæl og blessuð.

Þið umgangist barnið bara eins og þið eruð vön. Umgangspestir eru oft mjög smitandi. Maður ber í sér sýkilinn í einhvern tíma og smitar áður en maður verður veikur svo það er nær vonlaust að koma í veg fyrir smit. Svo er hins vegar móðurmjólkinni fyrir að þakka að brjóstmylkingar veikjast ekki mjög oft og ef þeir veikjast þá veikjast þeir vægt. Svo að þegar allt kemur til alls er best að haga sér nákvæmlega eins og maður er vanur og fylgjast svo bara með barninu. Ef það veikist er trúlegt að það þurfi enn meira á brjóstinu að halda en venjulega á meðan pestin er að ganga yfir. 

Bestu óskir,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. nóvember 2006.