Spurt og svarað

18. janúar 2010

Ungbarnasæng eða teppi

Sælar og takk fyrir góðan og gagnlegan vef.

Ég er búsett í Hollandi og á von á mínu fyrsta barni eftir nokkrar vikur. Það veldur mér nokkrum áhyggjum að hér er foreldrum sagt að láta börnin ekki sofa með sæng heldur teppi (bómullar eða ullar) til 2ja ára aldurs. Þar sem húsin hér eru ofsalega köld á veturna á ég mjög erfitt með að sætta mig við þessa "reglu". Fyrstu dagana eru settar flöskur með heitu vatni í rúm barnsins undir teppið svo það ofkælist ekki og mikið er talað um að börnum megi ekki verða of heitt. Ég er alveg eyðilögð yfir þessu því ég gæti sjálf ekki hugsað mér að sofa eingöngu með teppi yfir vetrartímann og hvað þá ungabarn. Ég hef rætt þetta lauslega við dömuna á skrifstofunni hjá sængurkvennaaðstoðinni sem kemur að aðstoða mig eftir fæðingu. Hún gat auðvitað ekki svarað mér og sagði að ég þyrfti að taka þetta upp við hjúkrunarkonuna sem kemur hingað heim í yfir viku að aðstoða mig þegar barnið er komið í heiminn. Satt best að segja er ég farin að liggja andvaka yfir þessu því ég er svo hrædd um að sængin verði bönnuð og ég eigi eftir að tapa mér. Vitið þið hvort þessar reglur eigi við í öðrum löndum og þá afhverju ekki á Íslandi þar sem við eigum hlý og góð hús?

Með fyrirfram þökk, GuðrúnKomdu sæl Guðrún.

Það eru auðvitað mismunandi siðir í hverju landi en það er enginn sem getur bannað þér að nota sæng fyrir barnið þitt.  Það er kannski ráðlagt í Hollandi að nota teppi en það er þitt að ákveða hvort þú ferð eftir þeim ráðleggingum.  Teppi eru ráðlögð í fleiri löndum.

Það er líka ráðlagt hér á Íslandi að láta börnum ekki verða of heitt, eða ofdúða ekki börnin, þar sem tengst hafa fundist á milli þess og vöggudauða. 

Á Íslandi er mjög rík hefð fyrir sængum og unbarnadauði mjög fátíður.  Það hefur því ekki komið til umræðu að breyta eitthvað venjum um þetta hér. 

Kveðja
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
18. janúar 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.