Uppfullur af lofti og harður magi

30.05.2006


Góðan dag og takk fyrir frábæran vef!

Ég er með tveggja vikna strák sem að var fyrstu vikuna sína mjög vær og góður en eitt kvöldið varð hann rosalega veikur í maganum og hefur verið þannig núna í viku. Hann er uppfullur af lofti og stundum er maginn svo harður að hann er eins og grjót viðkomu. Ég reyni að láta hann ropa eins og ég get, en það er samt erfitt að fá hann til að ropa. Hann grætur svolítið út af þessu og er að rembast allan daginn og alla nóttina greyið. Ég er byrjuð að gefa honum grasaseyði sem virðist hjálpa honum eitthvað en ekki mikið. Ég er búin að nota mexíakanahatt alla brjóstagjöfina því að ég kom honum ekki öðruvísi á brjóst en er að reyna eins og ég get að sleppa honum - hefur tekist þrisvar hjá mér að koma honum beint á brjóstið og vonandi á það eftir að koma með tímanum. Getur verið að hann sé að gleypa svona mikið loft út af hattinum? Er þetta kannski þessi týpíska magakveisa og gengur yfir eða ætti ég að fara með hann til læknis í skoðun aftur (fór sko með hann fyrsta kvöldið til læknis þegar þetta byrjaði)?

Með von um svör :)


Sælar!

Mér finnst þessi lýsing hljóma þannig að það sé betra að fara með barnið í læknisskoðun til að athuga hvort þetta sé magakveisa. Þau gleypa yfirleitt ekki mikið loft með mexíkanahattinum. Ég held líka að það sé ráðlegt að bíða með grasaseiði með svona lítið barn.

Með kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. maí 2006.