Út í vagn og í hesthúsið

15.12.2014
Sælar.
Ég á 16 daga gamlan strák og er bara alveg búin að vera með hann heima síðan ég átti. Nú er mig farið að langa frekar mikið til að byrja að hreyfa mig og er búin að vera að velta því fyrir mér að fara í göngutúr með hann í vagninum. En ég vildi fyrst spyrja hvenær mér væri óhætt að fara með hann út í göngutúr og hversu lengi? Og hvað má vera kalt? Mig langaði líka aðeins að fara að kíkja út í hesthús og var að spá hvenær ég mætti taka hann með þangað? Hann gæti verið inni í húsinu í vagni á öruggum stað.

Sæl og blessuð og til hamingju með drenginn. Það eru ansi skiptar skoðanir á því hvenær má fara út. Oft hefur verið talað um að barnið þurfi að vera 4 vikna og 4 kíló. Það verður þó að taka tillit til þess árstíma sem barnið fæðist á og hversu þungt það er við fæðingu. Mörg börn fæðast jú 4 kíló eða þyngri. Heilbrigð skynsemi á vel við hér. Ef að barnið dafnar vel, þyngist og er komið vel yfir fæðingarþyngd og veðurfar er milt og gott er í lagi að fara að huga að því að fara út í stutta stund (ca. 20 mín.). Þegar þú byrjar að fara út verðurðu að fylgjast vel með honum í vagninum og finna að honum sé hæfilega hlýtt. Það verður að segjast eins og er að í því veðurfari sem ríkir þessa dagana er ekki hægt að mæla með því að fara með svo ungt barn út í vagni.
Varðandi hesthúsið þá ætti að vera í lagi að fara þangað ef að hægt er að tryggja bæði hita og öryggi þá stund sem þið stoppið þar.
Gangi þér vel.
 
Bestu kveðjur
Áslaug Valsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
15.12.2014