Spurt og svarað

24. október 2012

Vandamál við hægðalosun

Okkur hafa borist tvær mjög svipaðar fyrirspurnir sem við ákváðum að svara með einu svari.

Góðan daginn og takk fyrir fróðlegan vef.
Ég á einn hraustan og kátan strák sem er rétt að verða 4 mánaða, eina vandamálið er við hægðalosun. Hann fær einungis brjóstamjólk og hefur þyngst mjög vel en síðasta mánuðinn hefur hann alls ekki losað sig við hægðir án þess að við maðurinn minn höfum sett hitamæli í rassinn á honum. Við gerðum það fyrst í lok september þegar hann hafði ekki kúkað í nokkra daga. Eitt kvöldið fór hann að hágráta (gerir það annars aldrei) og maginn var harður og kreppti lappirnar. Fyrst reyndum við að láta hann hjóla og nudduðum magann en eftir smá pot með hitamælinum þá komu miklar hægðir og hann pissaði einnig, þá slakaði litli stubbur alveg á og steinsofnaði eftir að búið var að þrífa öll ósköpin. Um mánaðarmótin september/október fór hann síðan í 3 mánaðaskoðun og þá spurðum við út í þetta, læknirinn sagði að það væri alveg eðlilegt að hann breytti hægðamynstrinu og kúkaði sjaldnar, það væri hins vegar sjaldgæft að börn fengju hægðatregðu þegar þau væru aðeins að fá brjóstamjólk. Því ættum við ekkert að vera nota hitamælinn nema hann væri eitthvað verulega að kvarta, læknirinn þreifaði einnig á endaþarminum og sagði að þar væri allt í lagi þannig að hann ætti alveg að geta losað sig við kúkinn sjálfur. Þannig að við vitum það að börn sem fá aðeins brjósta mjólk eiga ekki að fá hægðatregðu en núna hefur það gengið þannig þennan mánuðinn að hann kúkar ekkert í u.þ.b. 6-7 daga en svo kemur að því að hann fer að gráta og nær ekki að sofna nema rétt dotta og svo herpist allur saman þannig að við höfum notað hitamælinn í hvert skipti og alltaf hefur hann náð þá að losa sig við mikið magn hægða að maður á eiginlega erfitt með að ímynda sér að þetta komist allt fyrir í svona litlum líkama. Nú er mér eiginlega alveg hætt að lítast á blikuna, ég er hrædd um að maður sé að koma upp einhverjum vítahring með þessari aðferð, ég var búin að lofa sjálfri mér að reyna láta hann sjá um þetta næst þegar kæmi að þessu. En í kvöld gafst ég upp á að bíða með að hann afgreiddi þetta sjálfur (hafði ekki kúkað í viku) eftir að hann var búin að engjast í meira en klukkutíma og ná síðan að sofna í smá stund aðeins til þess að vakna aftur upp argandi og allur í herping. Sérstaklega útaf því maður veit að þetta virkar eftir smá pot, stundum í nokkrar mínútur en þá kemur þetta alltaf. Kúkurinn sem kemur er frekar þykkur og kremkenndur síðan kemur oft vatnskennt fruss í lokin. Hvað er eiginlega hægt að gera? Ég hef ekki breytt neinu í matarræði frá því ég átti hann og fyrstu tvo mánuðina kúkaði hann oft á dag en síðan fór það að verða u.þ.b. 2-3 á dag með mikilli sprengju upp fyrir bleyjuna þar til þetta fór í þetta ferli. Afsakið langlokuna en oft segist þið ekki getað svarað spurningum því ykkur vantar upplýsingar.
Bestu kveðjur BB

  ---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Strákurinn minn fæddist fyrirburi og léttburi og er hann orðinn núna u.þ.b. 3,6 kg. Hann er núna á NAN 1 og hefur verið það frá því að hann fæddist hann er rosalega duglegur að borða og alltaf með lyst og þyngist vel.
Hann hefur verið að rembast svakalega mikið og fer svo að gráta á meðan því stendur og það kemur enginn kúkur né prump en eftir svona 2 tíma að rembast að þá kemur kannski smá prump eða mikill niðurgangur (sem er vel blautur og svona hálf mosagrænn,) eftir að hafa ekkert kúkað í sólahring. Þetta veldur okkur miklum áhyggjum þar sem að við hjónin sjáum greinilega að ekki sé allt í lagi og að honum finnist þetta vont. Við erum búin að fara til læknis útaf þessu sem hélt hann að hann væri með of litið endaþarmsop. En það var athugað og kom neikvætt og við send heim með strákinn og ekkert meira gert. Hann sefur litið á nóttunni útaf þessu og er alltaf að vakna við það að rembast en svo á daginn róast hann aðeins en bara af því að við höldum á honum og hossum honum eða leyfum honum að liggja á maganum á bringunni okkar og er hann dauðþreyttur eftir nóttina.
Hann á það líka til að spenna sig allan upp og fara svo að gráta eins og hann sé með krampa í öllum líkamanum
Gætirðu ráðlagt mér eitthvað?
Kveðja, ein sem er orðin þreytt á svarinu ,,þetta er eðlilegt"

Sæl

Þetta er algengt vandamál og tengist starfsemi endaþarmsvöðvans, oftast er þetta vandamál bara til staðar fram að 6.mánaða aldri. Þetta kallast dyschezia og er í raun ekki hægðatregða heldur frekar ósamhæfing þegar kemur að því að losa hægðir. Í stað þess að slaka á hringvöðvanum virðast þessi börn herpa hann í rembingnum, einnig nota þau magavöðva og þindina til að rembast og það veldur miklum óþægindum.
Það er í raun ekkert hægt að gera fyrir drenginn þar sem búið er að ganga úr skugga um að endaþarmurinn sé eðlilegur.
Hann þarf að læra að slaka á endaþarmsvöðvanum. Með því að setja hnén að brjósti og láta hann "hjóla" eruð þið að opna betur grindina og ná auknum slaka í grindarbotnsvöðvum, þetta getur hjálpað. Þið gætuð líka búið til olíublöndu með kókos eða ólívuolíu u.þ.b. 15 ml, 1 dropi fennel og 1 dropi lavender ilmkjarnaolíur (fást t.d. í Jurtaapótekinu). Nuddað kviðinn á honum í hring, eins og ristillinn liggur frá hægri hlið yfir á þá vinstri.
Þetta gæti hjálpað honum að slaka á og þetta er notaleg stund fyrir bæði foreldra og barn. Þetta ættuð þið að gera dagana eftir að hann losar hægðir en ekki bara þann dag sem hann er farinn að kvarta vegna óþæginda.
Ef honum finnst nuddið gott ættuð þið endilega að halda áfram með allan líkamann, börnum finnst yfirleitt mjög notalegt að fá nudd á fótleggi og handleggi.


Gangi ykkur vel
Margrét Unnur Sigtryggsdóttir
Hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir
24. október 2012
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.