Vatn í eyru ungbarns

12.10.2009

Þegar verið er að baða ungbörn, verður þá að passa að ekki fari vatn í eyrun á þeim? Bæði foreldrar mínir og tengdó sögðu mér það. Þau geta hins vegar ekki gefið mér nákvæmar skýringar á því af hverju það er bannað. Þetta er eitthvað sem þeim var kennt þegar þau eignuðust sín börn.

Mér finnst þetta mjög skrýtið þar sem mörg börn fara í ungbarnasund mjög ung, svo finnst mér erfitt að koma í veg fyrir þetta við böðun.  Er einhver góð ástæða fyrir þessu eða er þetta bara rugl? Ef þetta er rétt, hversu lengi á maður þá að passa upp á þetta?  Á spítalanum var ekki minnst á þetta en sagt að ég ætti alltaf að þurrka eyrun með eyrnapinna eftir það. Ég gerði það fyrstu vikuna síðan gafst ég upp og þurrkaði bara með handklæði.

Eyrun voru hvort sem er orðin þurr þegar ég var búin að ná í eyrnapinna. Á maður kannski að þurrka alveg inn í eyrnagöngin með pinnanum? Takk fyrir frábæran vef

Bestu kveðjur

Líney


Komdu sæl Líney

Þetta er eitthvað gamalt að ekki megi fara vatn í eyrun á ungbörnum.  Þau liggja jú í legvatni fyrstu 9 mánuðina sína.  Ekki hefur verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að vatn í eyru stuðli að eyrnabólgum.

Þú átt að þurrka með handklæði eyrum á barninu og aldrei ætti að fara með bómullarpinna inn í eyrnagöngin á barni.  Þeir geta verið ágætir til að þrífa ytra eyrað ef þarf.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
12. október 2009.