Spurt og svarað

21. febrúar 2007

Vaxtarkippir

Sæl/sælar og takk fyrir frábæran vef, hefur reynst mér mjög vel.
Fann ekkert í gagnabankanum um vaxtarkippi/verki. Er einhver þumalputtaregla um hvenær börn fá vaxtarkippi? Man að ljósmóðirin sem kom heim talaði alla vega um í kringum 2 og 6 vikna aldur en ég man ekki hvort við töluðum um framhaldið. Dóttir mín, sem er 9 vikna var ansi pirruð í síðustu viku, svaf stutt að degi til, vildi drekka meira, var meira grátgjörn og vildi síður vera hjá öðrum, en hún er venjulega mjög vær.  Núna er hún aftur rólegri og virðist þreyttari en venjulega.  Eru þetta týpísk einkenni fyrir vaxtarkippi?
Bestu kveðjur
Eva

Komdu sæl Eva og takk fyrir fyrirspurnina.
 
Þumalputtareglan um vaxtarkippi er að þeir komi fyrst um 3 vikna svo aftur um 6 vikna, 3 mánaða og 6 mánaða.  Þetta eru að sjálfsögðu ekkert heilagir tímar og vaxtakippir geta í raun komið hvenær sem er.  Helstu einkennin eru þau að barnið virðist alltaf vera svangt og er óvært ef það fær ekki að borða.  Það vill vera miklu meira á brjósti en vanalega.  Svona er þetta í 2 - 3 daga eða þar til barnið hefur aukið framleiðslu brjóstamjólkur hjá mömmu sinni (barnið stjórnar framleiðslunni með soginu) og fær aftur nóg í hverri gjöf.
Mér heyrist dóttir þín hafa haft þessi einkenni um daginn svo sennilega hefur verið um vaxtarkipp að ræða. 
Börn taka líka þroskakippi sem er ekki það sama og vaxtarkippur.  Þegar mikill þroski kemur fram á stuttum tíma eins og t.d. um 7 mánaða aldurinn þegar barnið er farið að sitja, skríða, fer að standa upp, og aðskilnaðarkvíði kemur fram.  Á þessum tíma geta þau átt það til að verða pirruð og þurfa meira á mömmu og pabba að halda en venjulega.
 
Bestu kveðjur
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
21.02.2007.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.