Spurt og svarað

21. nóvember 2010

Venjuleg mjólk eða þurrmjólk?

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef!
Ég á þriggja mánaða strák sem ég þurfti að hætta með á brjósti 6 vikna vegna mikilla erfiðleika. Síðan þá hefur hann eingöngu fengið þurrmjólk. En ég var að spá hvort það sé það eina sem þau mega fá? Föðursystir mín sem var ekki með börnin sín á brjósti sagðist oft hafa gefið börnunum sínum venjulega mjólk þynnta með vatni. Ég þori samt ekki að gefa honum neitt án þess að fá staðfestingu á því að það sé allt í góðu. Ég er nú aðallega að spá í þessu af því að þurrmjólkin er dýr og strákurinn minn er stór og þarf þar af leiðandi frekar mikið að drekka. En enn og aftur takk fyrir góðan vef. Hann hefur hjálpað mér mikið síðasta árið.

Sæl og blessuð.
Það er ekki hægt að mæla með að barnið fái annað en þurrmjólk úr því sem komið er. Þó er auðvitað ekki hægt að banna mæðrum að gefa annað, nú frekar en áður fyrr. Hér áður fyrr var náttúrlega ekki til þurrmjólk og þá var gefin allskonar önnur mjólk oft þynnt og sykruð. Mörgum fannst það gefast vel. Síðan var farið að framleiða þurrmjólk úr kúamjólk og reynt að aðlaga hana að þörfum ungbarna með ýmsum breytingum. Þannig er hún nú það sem kemst mest í líkingu við brjóstamjólk á undan öllum öðrum blöndum. Þannig fer hún í 4ða sæti yfir það sem maður gefur ungbörnum.
Þannig að ég mæli með þurrmjólkurgjöf a.m.k. til 6 mánaða aldurs. Ég bendi þó á að hér á landi eru seldar nokkrar tegundir þurrmjólkur. Þær uppfylla allar öll skilyrði og eru nokkurn vegin jafngóðar. Þær eru þó mjög misdýrar og um að gera að velja þá sem hentar manni best.
Bestu óskir,
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. nóvember 2010.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.