Vigt fyrir ungbörn

02.07.2009

Er hægt að kaupa eða fá leigða ungbarnavigt.  Er með eina 10 vikna dömu sem er með bakflæði og er komin á lyf við því vegna þess að hún ælir mjög mikið og er ekkert að þyngjast.  Þess vegna langar mig til að getað viktað hana heima fyrir og eftir gjafir til að sjá hvort að hún sé ekki að fá alveg nóg, en hún er bara á brjósti og er annars mjög vær og góð og sefur vel og virðist alls ekki hungruð eða svoleiðis.  Ég vil helst bíða með að gefa henni ábót eða graut út af þessu og því vil ég fyrst sjá hvað hún er í raun að drekka í hvert skipti.  Ég á tvö börn fyrir og lenti aldrei í æluveseni með þau og þau þyngdust alveg eðlilega og voru eingöngu á brjósti í 6 mánuði.

Með von um svör frá einni óöruggri þriggja barna móður.


 

Komdu sæl

Þú ættir að geta fengið vigt annað hvort hjá Eirberg eða Austurbakka til að vigta stúlkuna.  Ég held líka að Þumalína eða einhverjar svona smábarnabúðir hafi verið að leigja vigtar líka.  Þú þarft bara að leggjast í símann og spyrjast fyrir.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
2. júlí 2009.