Vill alltaf sofa upp í á kvöldin...

20.04.2006

Ég er með einn 4 daga gamlan strák (mitt fyrsta barn:)) og ég er svolítið órögg með þetta allt saman. Þannig er að á daginn þá er hann mjög vær og sefur alltaf í vagninum inni (hann sefur af einhverjum ástæðum betur í honum heldur en í rúminu sínu). En svo á nóttinni þá virðist hann bara sofna ef hann fær að sofa upp í hjá okkur. Er einhver leið til að fá hann til að sofa í vagninum sínum yfir nóttina? Er nokkuð gott að börn venjist því að fá alltaf að sofa upp í? Ætti ég að vera meira með hann á kvöldin, halda á honum og knúsa hann svo hann sofi í vagninum sínum eða rúminu á nóttunni? Hann sefur alltaf 2-3 tíma í senn á nóttunni. Þó hann hafi verið upp í alla nóttina þá virðist hann ekki vilja sofa í vagninum þegar við erum í rúminu.


Sæl og blessuð!

Það er fullkomlega eðlilegt fyrir nýfætt barn að vilja vera í nálægð við foreldra sína. Þau þarfnast þess að finna fyrir öryggi og hlýju.  Það er enginn hætta á því að þú venjir hann á slæma siði á fyrstu viku lífs síns. Flest nýfædd börn sofa betur í nálægð við móður sína en ein í vöggu eða rúmi þessa fyrstu daga. Á þessum fyrstu vikum eru fæðugjafir að komast í jafnvægi og þú/þið að læra inn á hegðun þessa nýja einstaklings, ekki er hægt að ætlast til þess að svefn og fæðugjafir séu í rútinu til að byrja með, það kemur í ljós með tímanum, svo að þolinmæðin er besta ráðið hér.

Með von um gagn og gaman,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. apríl 2006.