Spurt og svarað

24. ágúst 2010

Vill ekki liggja á bakinu

Ég er með einn vikugamlan strák sem vill ekki liggja á bakinu.  Þegar ég skipti á honum grætur hann mjög sárt allan tímann, og eins þýðir ekkert fyrir mig að láta hann sofa á bakinu.  Hann var skoðaður af barnalækni fyrir 3 dögum og fann hann enga ástæðu fyrir þessu, engin merki um bakflæði eða að það sé neitt athugavert við bakið, hnakkan eða rassin á honum.  Hann drekkur vel og sefur vel ef ég legg hann á hliðina.  Ég hef verið að velta fyrir mér hvort hann geti verið með eitthvað magavandamál því hann er mjög óvær stundum, en róast ef maður strýkur honum á maganum.  Hann skilar hægðum í nánast hverri gjöf þannig að ég veit ekki hvort hann gæti verið eitthvað stíflaður og maginn er ekki harður.  Ég er orðin alveg í stökustu vandræðum með hann því ég þarf að skipta ansi oft á honum og þegar hann grætur svona sárt finnst mér eins og ég sé að meiða hann.   Er eitthvað sem eg get prófað til að laga þetta?


Komdu sæl.

Þar sem læknisskoðun var eðlileg er líklegast að drengnum líki bara ekki að vera á bakinu og að láta skipta á sér.  Hann er ekki einn um þetta, mörg börn mótmæla kröftuglega þegar verið er að eiga við þau, skipta á þeim eða klæða þau í og úr fötum.  Þú verður bara að halda þínuu striki þrátt fyrir mótmæli, það þarf jú að skipta á honum.
Það er fullsnemmt að vera komin með magavandamál, magakveisa byrjar venjulega ekki fyrr en um 3ja vikna, en hugsanlega er eitthvað sem þú borðar sem fer illa í magann á honum. 

Gangi ykkur vel

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
24. ágúst 2010.Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.