Vindgangur og vond lykt hjá 10 daga nýbura

11.11.2005

Sæl!

Ég á 10 daga gamalt barn sem prumpar ansi mikið og raunar mjög mikið og með því kemur ekki góð lykt. Hvað getur þetta verið? var að detta í hug hvort að þetta getur verið sorbitolið sem ég tek 2 sinnum á dag (vegna þess að ég fékk 3 gráðu rifu). Getur það verið? Ekki getur það verið eðlilegt að hún hafi svona mikinn vindgang með lykt og öllu þannig að þeir sem koma í heimsókn taki eftir þessu?

Með von um svar.

Kveðja, Ásta.

.............................................................................

Sæl og blessuð Ásta.

Það er reyndar oftast þannig að það eru mikil magaumbrot og vindgangur í heilbrigðum hraustum brjóstabörnum. Þetta er náttúrlega svolítið mismikið milli einstaklinga en það getur verið verulega mikið hjá sumum. Þetta er eitt af þessum einkennum í hegðun brjóstabarna sem manni finnist óeðlilegt bara ef það vantar.

Lykt er atriði sem erfitt er að meta eftir sambærilegum mælikvörðum. Sumum finnst venjuleg hveralykt alveg óumræðilega vond á meðan öðrum finnst hún bara allt í lagi. Það á að vera lykt af vindgangi barna en hún á ekki að vera vond (eins og ýldulykt eða svoleiðis). Oft finnst foreldrum lykt barna sinna allt í lagi eða góð en kannski öðru fólki ekki.

Nei þú þarft ekki að hafa áhyggjur af Sorbitolinu. Það er lyf sem virkar aðallega staðbundið í þörmum móðurinnar. Það fer lítið út í blóðið og kemst þar af leiðandi ekki yfir til barnsins. Ef þú ert hörð á því að þetta sé verulega vond lykt þá ráðlegg ég þér að fá mat hjá barnalækni.

Með bestu kveðju og ósk um áhyggjulausa brjóstagjöf,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. nóvember 2005.