Viðbrögð ungbarna

02.01.2007

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég tók eftir því um daginn að dóttir mín sem er að verða 5 mánaða er sein að kreppa  tærnar á hægri fæti þegar maður ýtir undir tábergið. Ég hef heyrt að þessi viðbrögð segja eitthvað til um taugakerfið. Er þetta eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af eða láta athuga?Komdu sæl.

Þetta viðbragð eða reflex sem heitir Plantar reflex, kemur í ljós um 4 mánaða aldur og er til u.þ.b. eins árs.  Það er hugsanlegt að stelpan þín sé bara að þróa með sér þennan reflex, og því sé hann ekki eins báðu megin.  Það er samt rétt hjá þér að mismunur milli hliða á því hvernig reflexinn kemur fram getur verið vísbending um eitthvað óeðlilegt í taugakerfinu.  Það skiptir þó meira máli að hún sé að vaxa og þroskast eðlilega að öðru leiti.  Haltu áfram að fylgjast með þessu og talaðu um þetta við hjúkrunarfræðinginn og lækni í næstu skoðun ef það heldur áfram að vera mismunur milli fóta.

Nýárskveðjur

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
2. jan. 2007.