Spurt og svarað

07. október 2008

Þriggja vikna með kvef

Sælar!

Ég er með einn glænýjan, þriggja vikna strák sem tókst á einhvern yfirnáttúrulegan hátt að næla sér í kvef. Hann er ekki með hita, en hann er mjög stíflaður og á stundum erfitt með andardrátt. Hann hóstar einnig og hnerrar greyið litla og er almennt pirraður. Þetta hefur áhrif á brjóstagjöfina þar sem hann á það til að rífa sig af brjóstinu einfaldlega til að ná andanum, þá verður hann óþolinmóður og pirraður þar sem hann er svangur. Að öðru leyti hefur brjóstagjöfin gengið mjög vel. Hann er langverstur eftir lúra, á nóttunni og morgnana, eins og slímið safnist saman meðan hann sefur. Við höfum hátt undir höfðagaflinum á rúminu hans og gefum honum reglulega saltvatnsdropa í nefið, höfum auk þess reynt að nota nefsugu en með takmörkuðum árangri, það er eins og slímið sé svo ofarlega. Það er hlýtt inni hjá okkur og hann er alltaf ágætlega klæddur.

Hann fæddist léttur, aðeins tæpar 12 merkur eftir fulla meðgöngu og er hægt og hægt að þyngjast en á ennþá hálft kíló í 4 kg þannig að við höfum ekkert farið með hann út ennþá. Við takmörkum heimsóknir mjög og látum alla spritta sig og þvo sér áður en hann er snertur. Ég var svo óheppin að fæða hann í verkfallinu og var því aðeins 6 klukkustundir á sængurkvennagangi sem var vægast sagt kaótískur þegar við komum þangað, aðeins klukkutíma eftir fæðinguna. Þannig að tengdaforeldrar mínir og aðrir nákomnir voru mættir inn á gafl hjá okkur þegar ponsinn var aðeins 3 daga gamall.

Mínar spurningar eru þessar:

  • Er eitthvað sem ég get gert annað en það sem ég tel upp hér að framan, til að láta honum líða betur eða batna?
  • Hvenær get ég búist við að hann komist yfir þetta?
  • Hvernig í ósköpunum hefur hann smitast af kvefi svona ungur, sérstaklega þar sem við fórum svo varlega með hann?

p.s. Ég er svo áhyggjufull yfir þessu að mjólkin hefur minnkað töluvert og ég er byrjuð á mjólkuraukandi töflum.

Með von um skjót svör, Áhyggjufull móðir í fyrsta sinn.


Sælar og til hamingju með drenginn þinn!

Mér sýnist af því sem þú skrifar að þú sért að gera allt það besta fyrir drenginn þinn. Það er spurning hvort þú sért búin að láta lækni skoða hann. Það að hann skuli vera á brjósti er svo mikilvægt fyrir hann þá fær hann mótefni frá þér sem hjálpa honum að takast á við kvefið. Það er erfitt að segja hvenær kvefið batnar – það virðist vera misjafn tími hjá börnum með það – svo það er ekki hægt að segja til um hversu lengi börnin eru veik. Það er erfitt að segja til um hvernig börnin veikjast – oft er það árstíðin – það er að segja að tíðnin á kvefi ert oft hærri á haustin og á veturna þegar kalt er í veðri. En ef þú hefur áhyggjur af honum – þá er gott að fara með hann í skoðun til læknis og/eða  ræða við hjúkrunarfræðinginn í ungbarnaverndinni.

Gangi þér vel með drenginn þinn.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. október 2008.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.