Þroski ungbarna

12.01.2009

Sælar og tak fyrir frábæran vef!

Ég er með einn 8 vikna sem ég hef áhyggjur af.  Hann þyngist vel og er duglegur á brjósti, en hins vegar horfir hann nær aldrei framan í okkur!  Hann í raun forðast það eins og heitan eldinn.  Hann er rétt farinn að brosa og hjala smá, en er sparsamur á brosin. Þegar ég hitti önnur börn á svipuðu reiki og jafnvel yngri finnst mér þau vera mun duglegri að fylgjast með og horfa framan í mann.  Ég er farin að ímynda mér allskonar hluti eins og t.d. einhverfu þar sem að forðast augnsamband er helsta einkennið.  Mér finnst hálfvegins hlegið að mér þegar ég ber áhyggjur mínar fram - sem mér finnst mjög leiðinlegt. 

Með von um svar sem fyrst, ungamamma


Komdu sæl

Þroski barna er mjög mismunandi og þeim er gefinn langur tími til að sýna ákveðin stig í þroska án þess að neitt sé óeðlilegt við það.  Það er góðs viti að hann sé farinn að brosa og hjala, en það að hann sé sparsamur á brosin er bara hans einkenni.  Hann getur líka verið frekar seinn til að sýna sum þroskamerki en það þarf ekki að vera óeðlilegt.  Hann er of ungur til að hægt sé að segja til um hvort eitthvað eins og einhverfa sé að, hann þarf að fá miklu lengri tíma til að sýna hvað í honum býr.  Hvert barn er einstakt og alls ekki viðmiðun þó önnur börn geri eitthvað sem hann gerir ekki.  Leyfðu honum að njóta vafans og sjáðu til.  

Í ungbarnaverndinni er farið yfir þroska barna á hverjum aldri.  Berðu upp áhyggjur þínar þar við hjúkrunarfræðinginn og lækinnn og þau munu vísa þér áfram þegar og ef tími kemur til þess.  

Kveðja 

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
12. janúar 2009.