Spurt og svarað

17. júlí 2006

Þruska

Ég vil byrja á því að þakka fyrir góðan vef. Það er mjög fræðandi að skoða hann og hjálpar manni oft í vangaveltunum um meðgönguna og hinn nýfædda einstakling.

Ég er með eina sex vikna gamla skvísu sem dafnar vel. Það sem mig langar að biðja um ráð fyrir er þruska á tungunni á henni. Ég keypti glyseról til að nota við þessu, mér finnst það ekki vera að virka, en kannski nota ég það ekki nógu oft. Hversu oft má nota það? Eru einhver önnur ráð við svona þrusku. Einnig langar mig að spyrja hvað þruska er og hvort það geti orðið hættulegt ef það heldur áfram að þróast.

Takk fyrir Sylvía.


Komdu sæl, Sylvía og til hamingju með litlu dömuna!

Hjúkrunarfræðingurinn í ungbarnaverndinni ykkar ætti að geta verið þér innan handar varðandi greiningu og meðferð á þessari þrusku. Þruska er það kallað, þegar hvít skán kemur á tunguna oft í skellum og hefur tilhneigingu til að breiðast út í munni barnsins og setjast innan á kinnar þess líka. Þruskan orsakast af sveppasýkingu (candida albicans). Þessi sveppur er eðlilega til staðar í munni okkar, meltingarvegi og í leggöngum kvenna. Talið er að u.þ.b. 5% ungbarna smitist af þessu í fæðingu, á leið sinni gegnum fæðingarveginn (sé þessi sýking til staðar hjá móðurinni). Einnig er hægt að fá sveppasýkingu eftir sýklalyfjameðferð eða smitast af höndum annarra við snertingu, frá pelum eða af brjóstvörtu móður. Fyrstu sex mánuði ævi ungbarna er oft minna af mótefni gegn sveppum í blóði þeirra eða það ekki til staðar, til að halda einkennum sveppasýkingar niðri. Hafi barn sveppasýkingu í munni er ekki óalgengt, að það fái einnig sveppasýkingu á húð á bleiusvæðinu. Þruska læknast oftast af sjálfu sér á endanum en þangað til ætti að viðhafa almennt hreinlæti eins og góðan handþvott í kringum gjafir, þvo vel pela eftir hverja notkun og snuð daglega, ef slíkt er notað. Síðan eru til sveppalyf við þessu til inntöku og einnig krem til að bera á bleiusvæðið. Það þarf líka að skoða geirvörturnar þínar til að útiloka sýkingu þar. Eins og ég nefndi í upphafi er árangursríkast að hafa heilbrigðisstarfsfólk í ungbarnaverndinni með í ráðum til að meta, hvaða meðferð hentar ykkur best, svo hægt sé líka að fylgjast betur með, hvernig gengur. Þar færðu nánari leiðbeiningar um meðferðina, hve oft og hvernig meðalið er gefið. Þruska getur verið þrálátt fyrirbæri en glýseról hjálpar stundum og er það þá borið á u.þ.b. 4 sinnum á dag.

Vona að þetta svari fyrirspurninni og gangi ykkur vel.

Kær kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
17. júlí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.