Þrútnar geirvörtur á 10 daga gömlum dreng

09.09.2008

Góðan dag!

Drengurinn minn er tíu daga, og er með þrútnar geirvörtur, svona eins og stelpa sem er að byrja að fá brjóst. Það eru þykkildi á stærð við 5 kr pening undir vörtunni. Það er enginn roði eða hiti í þessu. Ég tók eftir þessu bara núna nýlega, get ekki svarið fyrir að hann hafi fæðst svona. Stafar þetta af hormónum frá mér? Er þetta eðlilegt? Hvenær ætti þetta að hverfa?

Bestu kveðjur, Birna.


Sælar!

Það er alveg eðlilegt að nýfædd börn geta fengið eins og bólgu í brjóstin – það er kallað stálmi.  Þetta getur komið hjá bæði drengjum og stúlkum. Þetta eru hormónaáhrif frá móður, brjóstin bólgna mismikið hjá börnunum. Þetta lagast oftast á fyrstu vikunum – getur verið jafnvel í 6 til 7 vikur en oft tekur þetta styttri tíma. Þetta lagast alveg af sjálfu sér.

Með kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. september 2008.