Spurt og svarað

12. janúar 2006

Þrýstingur í brjóstum, er með 6 vikna prins

Sælar ljósmæður!

Langar að byrja á því að þakka fyrir góðan vef. Kemur sér ofsalega vel að geta leitað til ykkar, sérstaklega fyrir okkur sem ekki búum á landinu. Ég er með einn 6 vikna prins sem er alveg ofsalega duglegur að drekka og hefur aldrei verið neitt vandamál með brjóstagjöfina. Nú hins vegar finn ég fyrir miklum þrýsting í brjóstunum, svipað og þegar mjólkin var fyrst að koma í brjóstin. Þau eru ofsalega snertiaum og hörð og það er sársaukafullt að hreyfa sig mikið um. Mér datt í hug að þetta gætu verið einhverjar stíflur en finnst það ekki geta verið þar sem það lekur mjög auðveldlega úr þeim og það er ekkert vont að gefa stráknum brjóstið. Hann drekkur oftast á u.þ.b. 3tíma fresti á daginn en getur sofið í 5-6 tíma á milli gjafa á nóttunni. Hann þyngist rosalega vel. Hvað get ég gert til að losna við sársaukann í brjóstunum? Svo langar mig líka til að spyrjast fyrir um kviðslit hjá ungbörnum. Strákurinn er með kviðslit neðst á maganum og við erum búin að tala við lækni sem greindi þetta en við fengum ekki miklar upplýsingar hjá honum. Mér skilst að þetta geti horfið af sjálfu sér? Hann virðist ekki taka eftir þessu sjálfur en getur þetta orðið vont fyrir hann? Hverju á ég að vera að leita eftir til að vita að þetta sé í lagi og þurfi ekki að fara með hann aftur til læknis?

Bestu kveðjur, Danmamma.

..................................................................................................


Sæl og blessuð og takk fyrir að leita til okkar!
 
Á fyrstu vikum brjóstagjafar er framleiðslan að komast vel af stað og stundum getur framboðið verið meiri en eftirspurnin og fyllitilfinning og þrýstingur í brjóstunum. Athuga þarf að barnið drekki alltaf  að vild og ekki líði of langur tími á milli, eins og þú passar upp á. Börnin taka svokallaða „vaxtarspretti” og þá þurfa þau að drekka meira og oftar og auka þar með framleiðsluna. Meðan brjóstin eru að venjast aukinni framleiðslu getur myndast þrýstingur í brjóstunum, svipað því sem þú lýsir eins og í byrjun þegar stálminn kemur. Það er alveg rétt hjá þér að athuga hvort um stíflur geri verið að ræða en það þarf ekki endilega að vera vont þegar barnið drekkur, þó að stífla sé í brjóstinu en oft finnst aumt og rautt svæði einhversstaðar á brjóstinu. Hvíld, slökun, létt nudd yfir auma svæðinu og láta barnið drekka vel úr brjóstinu sem stíflan er í, er yfirleitt nóg til að leysa málið. Heitir bakstrar eða sturta hjálpar líka. Það getur líka bætt líðan að nota kalda bakstra inn á milli og þá er t.d.hægt að nota köld kálblöð úr ísskápnum eða kaldan gelpoka.

Varðandi spurninguna um kviðslitið þá held ég af lýsingunni að dæma að þetta sé kviðslit í nára en ekki nafla en í báðum tilfellum bungar hluti af görninni út um slakan kviðvegg. Ef um útbungun eða kviðslit í nafla er að ræða lagast það af sjálfu sér og sjaldnast er nokkuð gert. Ef hinsvegar um kviðslit í nára er að ræða, er viss hætta á að görnin klemmist og nánast alltaf eru gerðar aðgerðir á nárakviðsliti vegna þessa. Ég mæli með að þú ræðir þetta við barnalækni eða barnaskurðlækni.

Gangi þér vel með þetta og brjóstagjöfina,

Ingibjörg Baldursdóttir,
hjúkrunarfræðingur og brjóstagjafaráðgjafi,
12. janúar 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.