Spurt og svarað

28. janúar 2015

Einkennin horfin

Sæl. Ég fór í snemmsónar fyrir viku síðan og þá kom í ljós að ég var komin um 6 vikur á leið. Sáum hjartslátt og allt leit vel út. Síðan á mánudaginn hafa öll einkenni sem ég var með (þreyta, að þurfa oft að pissa, aum brjóst, ógleði um leið og ég varð svöng og ég finn ekki lengur fyrir neinum togverkjum) horfið. Ég hringdi í ljósmóðir á þriðjudaginn og sagði þetta við hana en hún sagði mér að vera bara róleg og þakklát fyrir að vera ekki óglatt og að eins lengi og ekki blæddi eða væru túrverkir, þá þyrfti ég ekki að hafa áhyggjur. En svo hef ég heyrt frá mörgum að ef einkennin hverfa þá getur það þýtt að fóstrið hafi dáið, en það hefur samt ekki komið fram fyrr en mörgum vikum seinna, eða þá að það hefur komið í ljós í 12 vikna skoðun að fóstrið dó fyrir löngu. Hverjar eru líkurnar á því, ef maður er algjörlega laus við þungunareinkenni? Ég pantaði tíma aftur í snemmsónar í næstu viku, því ég vil frekar vita ef eitthvað er að, en hvað er ráðlagt að maður geri?

 

Heil og sæl, það er algengt að einkenni hverfi og það getur gerst án þess að neitt sé að. Auðvitað getur í sumum tilfellum gerst að fóstrið deyi án þess að blæði eða komi verkir en það er þó sjaldgæfara. Því miður er ekki neitt sem að hægt er að gera, það er bara tíminn sem leiðir í ljós hvernig fer. Þú ert reyndar að fara aftur í sónar og þá færðu svar. En almennt þá er ekkert sem hægt er að gera svona snemma á meðgöngu til að forðast fósturlát. Maður verður bara að treysta líkama sínum og náttúrunni. Gangi þér vel.

Bestu kveðjur
Áslaug Valsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
28.01.2015
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.