Spurt og svarað

16. mars 2005

Þurrmjólk og hægðir

Til hamingju með frábæran vef.

Ég eignaðist barn sem er fyrirburi og er núna mánaðar gömul. Þannig er að mér hefur gengið mis vel með brjóstagjöfina en svo fór ég að hvíla brjóstagjöfina á næturnar bara svo að ég gæti eitthvað hvílst en þannig er að barnið mitt er með voðalega grænar hægðir einhverskonar .Gæti verið að barnið mitt þoli ekki þurrmjólkina sem ég gef því á nóttinni? Ég er að nota SMA þurrmjólk? Hvernig eiga venjulega hægðir að vera hjá svona barni?

Áhyggjufull móðir.

.....................................................................


Sæl og blessuð áhyggjufulla móðir.

Það er von að þú hafir áhyggjur af hægðunum. Sumir leggja mikla áherslu á hvernig hægðir barna eigi að vera. Auðvitað skiptir það einhverju máli, ég er ekki að segja það. En það má ekki verða aðalatriði.

Það er gjarnan sagt að ef barn er eingöngu á brjósti þá skipti hægðir engu máli hvað varðar þéttleika, lit og lykt. Þetta er rétt í aðalatriðum en ekki algilt. Það segir sig líka sjálft að ef barn þyngist eðlilega og þroskast þá skipta hægðirnar engu máli. Hægðir 1 mánaða brjóstabarna eru yfirleitt gulleitar, þunnar og kornóttar. Þær geta breytt um lit eftir mataræði móður og verða gjarnan grænar við mikið grænmetisát. Sumar vítamín og bætiefnapillur geta líka gert hægðir barna grænar. Ef barnið fær þurrmjólk með verða hægðir gjarnan meiri að umfangi, þéttari í sér, brúnleitari og með verri lykt. Grænar hægðir hafa stundum verið tengdar formjólkurofeldi. Það er þegar börn eru að taka of stuttar gjafir eða skipta of ört á milli brjósta. Það er ekki eina einkennið heldur verða hægðirnar mjög froðukennar og mikill loftgangur fylgir með. Það hljómar ekki eins og það sé vandamálið hjá þér.

Þegar verið er að ná hvíld til að ná upp mjólkurframleiðslu og eigin styrk er oftast verið að tala um 2-3 daga. Þú skalt ekki hætta brjóstagjöf til frambúðar á nóttunni því þá fer mjólkurframleiðslan mjög fljótt að dala. Mesti styrkur mjólkurframleiðsluhormóna er á nóttunni. Samkvæmt því sem þú segir ertu sjálf að gefa þurrmjólk á nóttunni svo ég skil alls ekki hver hvíldin á að verða. Þú er þvert á móti að bæta við þig vinnunni við blöndun á þurrmjólk, hitun og þrifum á pelum og áhöldum. Ef þú kippir barninu upp í og réttir því brjóstið þá geturðu kannski verið sofnuð eftir 20 mínútur og ert laus við aukavinnuna.

Með bestu óskum um ánægjulegar næturgjafir,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. mars 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.