Þvottur á ungbarnafatnaði

24.10.2006

Góðan daginn!

Einhvers staðar las ég að það sé ráðlegt að þvo alltaf ungbarnafatnað sér, þ.e. ekki með fötum af eldri systkinum eða foreldrum. Hversu lengi þarf að gera þetta?

Með bestu kveðjum, Heiða.


Komdu sæl, Heiða

Hvers vegna ráðlagt er að þvo ekki saman ungbarnafatnað og annan þvott á heimilinu, dettur mér helst í hug, að notað sé annað og sterkara þvottaefni fyrir eldri fjölskyldumeðlimi, sem gæti valdið útbrotum eða ofnæmi hjá ungbörnum. Varðandi ungbarnaþvott ætti að nota milt þvottaefni í litlu magni og skola þvottinn sérstaklega vel á eftir og ekki er ráðlegt að nota mýkingarefni þar sem sum ungbörn geta fengið útbrot vegna þess. Síðan ætti að líta til þess, hvort einhver í fjölskyldunni er með exem eða einhvers konar ofnæmi eða viðkvæmni í húðinni, hvort og hvaða þvottaefni er notað.
Hversu lengi þörf er á að þvo þvott ungbarna sér, veltur á aðstæðum ykkar. Get ímyndað mér að hálft til eitt ár sé hæfilegt eða eins lengi og þér hugnast það.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. október 2006.