Þykkildi í brjósti á fjögurra vikna dreng

01.03.2006

Sonur minn er að verða fjögurra vikna og ég var að taka eftir að á öðru brjóstinu á honum er einskonar þykkildi eða svoleiðis. Maður finnur fyrir eins konar hnút eða einverju svoleiðis. Var að pæla hvort þetta sé eitthvað hættulegt eða eðlilegt. Hvað getur þetta verið?

Vonandi er hægt að svara mér. Takk, takk.

.................................................................................................

Komdu sæl, mamma

Það þekkist, að bæði stúlkur og drengir fæðist með þrota í báðum brjóstum, nokkurs konar stálma, sem þreifast sem þykknun undir geirvörtum þeirra. Stafar það af hormónaflæði frá móður á meðgöngunni. Þetta hverfur oftast á fyrstu tveimur vikunum eftir fæðingu.
Það getur einnig komið fyrir, að börn fái sýkingu þarna og sést þá líka roði í húðinni á þeim stað. Það er erfitt að meta þetta, sem þú lýsir í fyrirspurninni, nema sjá það með berum augum og ættir þú því að leita til ungbarnaverndarinnar þinnar og láta skoða þetta.

Gangi þér vel. 

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
1. mars 2006.