Spurt og svarað

03. maí 2005

Áhyggjur vegna endurtekinna fósturláta

Sæl og blessuð ljósmóðir.

Ég er orðin svolítið vonlítil þannig er mál með vexti að ég hef misst fóstur 4 sinnum og missti síðast seinnipartinn í janúar, ég missti fyrst 1994 komin 10 vikur, 1995 komin 11 vikur svo eignaðist ég barn í janúar 1997. Missti aftur 1999 og var þá komin um 13 vikur eignaðist svo aftur barn árið 2000. Var svo að missa í 4. skiptið í endaðan janúar og var þá komin 9 vikur.
Ég hafði svo ekki blæðingar aftur eftir aðgerð fyrr en í byrjun mars og þær voru mjög miklar hef aldrei haft svona miklar blæðingar, svo var ég að byrja aftur á blæðingum og er búin að vera með smá verki og miklar blæðingar og mikið að blóð kögglum getur verið að ég hafið verið að missa aftur? Ég var nefnilega búin að vera með mikla spennu og aum í brjóstunum svo mér finnst þetta vera skrítið . Hvað getur orsakað þetta að ég missi aftur og aftur við hjónin erum búin að fara í blóðrannsókn og það kom allt vel út.

Með von um svar ein með áhyggjur.
Takk fyrir.

.................................................................

Sæl vertu og þakka þér fyrirspurnina
- fyrirgefðu hvað svarið berst seint, ég vona að þú hafir enn eitthvað gagn af.

Það er leitt að heyra hvað þið hafið oft þurft að ganga í gegnum þá erfiðu reynslu sem fósturlát oftast er. Það eru afar eðlileg viðbrögð að þú sért nú kvíðin og orðin vonlítil.  Það er mjög erfitt að fullyrða nokkuð um hvort þú hafir misst fóstur við eða fyrir síðustu blæðingar þó þær hafi verið meiri en þú átt að venjast og tíðahringurinn lengri, það er þó auðvitað alltaf möguleiki ef þú hefur stundað kynlíf án þess að nota getnaðarvarnir.  Margar konur fá brjóstaspennu síðustu dagana fyrir blæðingar svo það er ekki óyggjandi merki um þungun.  Stundum tekur það líkamann svolítinn tíma að leiðrétta klukkur sínar eftir atburði eins og fósturlát, tíðahringurinn getur verið öðru vísi en vanalega og blæðingarnar einnig.  Sumir vilja meina að maður sé betur í stakk búin í næstu meðgöngu ef maður gefi líkamanum hvíld í a.m.k. þrjá mánuði eftir fósturlát (og nú eru u.þ.b. þrír mánuðir síðan síðast) en mér er þó kunnugt um að meðgöngur hafi gengið vel þó kona hafi orðið ófrísk strax eftir fósturlát, án þess að fá blæðingar á milli. Ef blæðingarnar hins vegar dragast á langinn eða halda áfram að vera svona miklar tel ég rétt að leita til læknis.

Það er því miður oft  mjög erfitt að finna einhverjar ástæður fyrir því að kona missir fóstur ítrekað.  Þó er talið að e.k. litningagöllum hjá fóstrinu sé um að kenna í u.þ.b. helming tilfella.  Stundum er hægt að finna einhverjar ástæður hjá móðurinni, t.d. ónóga hormónaframleiðslu eða ójafnvægi, ónæmisþættir eru ekki í lagi, sýkingar, sjúkdómar t.d. rauðir úlfar eða sykursýki, stundum er sköpulagsgöllum á leginu kennt um (s.k. hjartalaga leg eða sepamyndun í legi) eða jafnvel góðkynja vöðvahnútum.  Þú segir frá því að þið hjónin hafi farið í blóðrannsókn en ekki nákvæmlega hvað var rannsakað.  Ég held að það væri gott ef þið færuð til kvensjúkdómalæknis þar sem farið væri vandlega yfir ykkar mál, hvað er búið að rannsaka og hvað er hugsanlega hægt að skoða betur.  Það væri gott ef þið skrifuðuð niður á blað allar ykkar spurningar og vangaveltur því það er nú einu sinni svo að maður gleymir oftast helmingnum af því sem maður ætlaði að spyrja þegar maður er kominn á staðinn!

En það er ljós punktur í þessu öllu - eða eigum við að segja tveir?  Það eru meðgöngurnar sem þér tókst að klára - börnin ykkar tvö.  Þú hefur nú þegar fengið staðfestingu á því tvisvar að þetta er eitthvað sem þú getur.  Ég ætla þó alls ekki að draga úr sársaukanum og erfiðleikunum sem það kostar að missa fóstur endurtekið.  Ég vona að þú finnir kjark og þor til að takast á við þessa erfiðleika og vona að þú fáir góðan styrk frá fjölskyldu þinni og heilbrigðisstarfsfólki.  Ég veit þetta hljómar kannski eins og gömul klisja í þínu eyrum en góð vísa er aldrei of oft kveðin: Gerðu þitt besta til að lifa góðu lífi og njóta þess, andlega sem líkamlega, sleppa reykingum og áfengi, halda kjörþyngd og borða fjölbreyttan og hollan mat, taka fólínsýru og hreyfa þig reglulega, þá ertu alla vega búin að taka stjórn á þeim þáttum sem eru á þínu valdi.

Með von um að allt gangi vel í næsta sinn, bestu kveðjur,

Inga Vala Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, 
3. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.