Blæðingar eftir fósturlát

10.02.2006
Daginn, Mig langar að spyrjast fyrir um hversu lengi sé eðlilegt að blæði eftir að fósturlát hefur orðið.  Fósturlátið varð einhverntíman á tímabilinu 10-13 janúar en þá var ég á 9.viku meðgöngu.  Ég var látin nota töflur til að hreinsa legið og fóstrið (sekkurinn) skilaði sér út 16.janúar.  Í dag er 4.febrúar og það blæðir enn. Blæðingarnar hafa verið mis miklar.  Mér finnst hins vegar eins og það gæti hugsast að ég sé á blæðingum núna þar sem blæðingarnar hafa verið meiri undanfarna daga.  Það sem ég hef helst áhyggjur af er hvort ekki hafi hreinsast allt út úr leginu eins og átti að gerast - líkaminn átti að sjá um það sjálfur.  Mér var sagt að allt væri á eðlilegri leið og best að láta líkamann sjá um þetta sjálfan.
Ég hef lesið að blæðingar byrji ekki fyrr en 4-5 vikum eftir fósturlát svo þetta passar ekki alveg við það.
Er þetta eðlilegt?
Með fyrirfram þökk. H

........................................................
 
Komdu sæl H. 
 
Ég samhryggist þér vegna fósturlátsins.  Það getur blætt þónokkurn tíma, jafnvel nokkrar vikur eftir fósturlát.  Ef þú ferð hinsvegar að finna vonda lykt eða blæðingarnar aukast ættir þú að láta skoða þig til að vera viss um að ekkert sé eftir.
 
Þar sem blæðingarnar höfðu aukist hjá þér þegar þú skrifar okkur og ef þær eru ekki hættar núna þá ættir þú að hafa samband Móttökudeild Kvennadeildar og fá að koma þangað í skoðun.
 
Gangi þér vel.
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
10.02.2006.