Spurt og svarað

02. nóvember 2006

Blóðflokkar og fósturlát

Ég er með fyrirspurn varðandi blóðflokka. Ég er í A mínus sem getur víst skapað vandamál á meðgöngu. Ég missti fóstur um daginn og fékk sprautu en ekki nægilegar upplýsingar. Ég þekki þetta ekki nógu vel en þar sem ég er í þessum flokki gæti þá verið erfiðara fyrir mig að verða ólétt eða halda fóstri? Mig langar líka að spyrja hvort það skipti máli í hvað flokki faðirinn er? Getur það verið ómögulegt að eignast barn ef blóðflokkar passa ekki saman? Ef svo er hvaða flokkar eru það sem ekki passa saman? Takk aftur fyrir góðan vef sem hefur hjálpað mjög mikið.

Góð kveðja, Ein forvitin.


Sæl og takk fyrir að leita á ljosmodir.is! 

Ef þú ferð á spurt og svarað og slærð inn “rhesus neikvæð móðir” er greinargóð lýsing á rhesus misræmi, sem vonandi svarar að einhverju leyti fyrri fyrirspurn þinni, þ.e.a.s. hvað varðar blóðflokkinn þinn A mínus, en mínus stendur fyrir rhesus. Fyrir utan vandamál sem geta skapast varðandi rhesus misræmi, er hugsanlegt að vandamál skapist ef það er blóðflokkamisræmi hjá barni og móður, en það er mjög sjaldgæft (0,1%) og þá aðallega ef móðir er í O flokki og barn í A, B eða AB, sem á ekki við í þínu tilfelli. Þessi vandamál geta valdið gulu hjá nýburanum, eða blóðleysi í móðurkviði, svipuð einkenni og þegar um rhesus misræmi er að ræða, en í upphafi meðgöngu skapar þetta engin vandamál.

Ekki á að skipta máli fyrir frjósemi, eða aukna áhættu á að missa fóstur snemma, í hvaða grunnblóðflokkum foreldrar eru, en vandamál geta skapast síðar á meðgöngu ef undirblóðflokkun móður og barns eins og t.d. við rhesus misræmi er um að ræða. Fylgst er vel með þessu í mæðravernd á Íslandi, og þar sem þú fékkst sprautu núna er mjög ólíklegt að vandamál skapist í framtíðinni vegna þessa. Því miður er það hins vegar svo að um 20-30% allra þungana enda með fósturláti og yfirleitt fást engin/fá svör við því hvers vegna það gerist, en þú þarft hins vegar ekki að hafa áhyggjur af því að það tengist blóðflokkum ykkar foreldranna.

Kærar kveðjur og gangi þér og ykkur vel,

Steinunn H.Blöndal,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
2. nóvember 2006.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.