Spurt og svarað

06. október 2004

Blóðprufur og þungunarhormón

Sæl!

Ég fór í 2 blóðprufur í síðustu viku og þungunarhormónið tvöfaldaðist ekki alveg og læknirinn sagði mér það í gegnum síma og sagðist þá halda að fóstrið væri dáið. Er það alltaf pottþétt? Tvöfaldast hormónið alltaf, jafnvel þegar kona er komin mjög stutt? Ég á ekki tíma hjá lækni fyrr en eftir 2 vikur og mér fannst þetta eitthvað svo ónákvæm svör hjá lækninum.

Langaði bara aðeins að forvitnast, takk fyrir.

..........................................................................

Komdu sæl og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn.

Þar sem það sem þú ert að spyrja um er kannski ekki sérgrein okkar ljósmæðra þá get ekki annað en bent þér á að ræða þetta betur við lækninn þinn og vertu óhrædd við að spyrja eins mikið og þú þarft til að fá svar við spurningum þínum.

Það sem ég get þó sagt þér er að á fyrstu átta til níu vikum meðgöngunnar tvöfaldast gildi þungunarhormónsins (hCG) á 36-48 klst. fresti. Við um það bil níu vikur nær gildið hámarki en fellur svo snöggt og er mjög lágt það sem eftir er meðgöngunnar.
Ef læknirinn var ekki viss hvort að fóstrið væri látið þá er það tíminn einn sem getur leitt í ljós hvort svo sé.  Það er erfitt að missa fóstur þó stutt sé komið og hér á síðunni eru margar spurningar  og góð svör varðandi fósturlát sem ég hvet þig til að lesa.

Með kærri kveðju,

Halla Björg Lárusdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
6.október, 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.