Bólga í brjósti eftir missi

28.10.2008

Sæl

Ég var að missa fyrir 3 dögum komin rétt tæpar 6 vikur á leið.  Það er búið að blæða mikið og að öllum líkindum allt búið að skila sér.  Samkvæmt blóðprufu sem ég fékk út úr í dag er þungunarhormónið komið niður fyrir 20 svo það ætti að mestu að vera farið úr líkamanum.  Málið er að ég er svolítið aum í öðru brjóstinu, eins og fyrir ofan geirvörtuna og er eins og þykkildi þar, þó ekki eins og ber heldur meira eins og það sem var fyrir hafi bólgnað (vona að þetta skiljist).  Þetta fann ég ekki áður en ég varð ófrísk og var ég ekki komin með nein eymsli í brjóstin áður en ég missti.  Er þetta eðlilegt eftir missi þegar þungunarhormónið ætti að vera farið úr líkamanum og fóstrið búið að skila sér?

Kveðja, Ein ráðvillt og aum eftir missi


Komdu sæl, ég samhryggist þér vegna missisins.

Ef ég skil þetta rétt er þessi bólga að koma fram núna eftir að þú missir fóstið og er þá sennilega ekki í neinum tenglsum við þungunina.  Öll þungunareinkenni hætta strax og hormónamagnið dettur niður þannig að þetta ætti ekki að stafa af þungunarhormóninu.  Ég ráðlegg þér að leita til læknis og fá skoðun á þessu.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
28. október 2008.