Spurt og svarað

20. ágúst 2004

Dulið fósturlát á 13. viku

Sælar og hjartans þakkir fyrir upplýsandi vef!

Ég er búin að lesa heilmikið um fósturlát á vefnum ykkar og er nú eitthvað bjartsýnni, held ég en er þó með smá fyrirspurn.

Ég greindist í 12. vikna sónar með dulið fósturlát - og var þá komin á 13. viku. Ég hafði farið í snemmsónar eftir rúmar 8 vikur og allt leit þá vel út. Öll meðgöngueinkenni voru engu að síður til staðar hjá mér fram á síðustu stundu, þ.e. brjóstin voru þrútin, fylgjan hélt áfram að vaxa, legið að stækka og farið var að sjá á mér - þannig að eðlilega var þetta mikið sjokk og kom okkur gersamlega í opna skjöldu. Ég fékk ekki nákvæmar upplýsingar um hvenær fósturlát gæti hafa átt sér stað en það voru jafnvel 2 vikur liðnar að mér skilst.

Mig langar því að spyrja hvort algengt sé að líkaminn haldi áfram að fóstra þrátt fyrir að fóstrið sé látið og hvernig standi á því?

Einnig hvort ég hafi einhver ráð til að fylgjast betur með lífsmörkum fósturs ef mér auðnast að verða barnshafandi aftur, því eðlilega er kvíði til staðar um að þetta endurtaki sig án þess að maður verði þess var.

Kærar kveðjur,
Vonandi

..................................................................

Sæl vertu og takk fyrir fyrirspurnina.

Dulið fósturlát getur verið mikið áfall fyrir þá sem það reyna, mörgum finnst mjög óhuggulegt að líkaminn haldi áfram meðgöngunni þó það sé í raun tilgangslaust, tilhugsunin um að fóstrið sé dáið getur verið mjög erfið. Sumum konum finnst jafnvel að líkami þeirra hafi brugðist þeim, kroppurinn þeirra hljóti að vera meira en lítið gallaður að bregðast ekki ,,rétt" við. Það er hins vegar ekki vitað af hverju það tekur líkamann stundum lengri tíma að átta sig á orðnum hlut.  Þú talar um að jafnvel tvær vikur hafi verið liðnar.  Oft tala ljósmæður og læknar sem gera ómskoðanir um að stærð fósturs svari tiltekinni meðgöngulengd.  Nú er það svo að þegar fóstur deyr fara vefir þess fljótlega að rýrna svo verið getur að það hafi dáið síðar, oft er mjög erfitt að svara því til nákvæmlega.  Stundum verða konur varar við smáblæðingu sem hættir svo eða að meðgöngueinkenni fari smá saman að réna.  Það er talið nokkuð algengt að fósturlát sé dulið en erfitt er að svara þér hér með ákveðnum tölum, fósturlát er skilgreint sem dulið ef uppgötvast
að fóstrið er dáið áður en líkaminn reynir að losa sig við það.  Vel má vera að í mörgum öðrum tilfellum hafi fóstur verið dáíð í einhvern tíma áður en t.d. byrjar að blæða eða meðgöngueinkenni að hverfa, það var einfaldlega ekki vitað áður en einkenni um fósturlát gerðu vart við sig - svo skilgreiningarmörk geta hér verið erfið.  Nú er einnig algengara að konur
fari nokkrum sinnum í ómskoðun snemma á meðgöngunni, fari til kvensjúkdóma-og fæðingalæknis til að fá staðfestingu snemma á meðgöngunni og svo í hnakkaþykktarmælingu og sumar jafnvel oftar, þannig að mér þykir ekki ólíklegt að slíkt sé nú að uppgötvast oftar þó svo ég hafi engar staðfestar tölur um það.

Það er þvi miður ekki útilokað að þetta geti komið fyrir aftur en það verður að viðurkennast að það er fátt til ráða til að fylgjast betur með annað en að semja við kvensjúkdóma- og fæðingalækninn þinn um að fá að koma reglulega í ómskoðun þar til þið teljið mestu hættuna liðna hjá.  Vertu bara viss um að slíkt veki ekki enn meiri streitu hjá ykkur.  Eftir 12.-14. viku
má svo oftast finna hjartsláttinn með hlustunartæki sem ljósmæður nota í mæðravernd og ef þú eða maki þinn eruð enn mjög kvíðin er hugsanlegt að fá að koma oftar í stuttar heimsóknir bara til að fá að heyra hjartsláttinn. Eftir að konur fara að finna hreyfingar, oft um eða eftir 18. viku, er það þeim oftast næg staðfesting á að allt sé i lagi.

Með von um að allt gangi vel næst.

Bestu kveðjur,

Inga Vala Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
18. ágúst, 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.