Spurt og svarað

11. maí 2005

Dulið fósturlát?

Ég fékk 2 jákvæð þungunarpróf fyrir 3 vikum en stuttu eftir það byrjaði að blæða. Samt var það ekki eins og venjulegar blæðingar en þykkara og mun minna en venjulega. Ég hef verið með öll einkenni óléttu, mjög aum brjóst, stækkun á brjóstum og ógleði. Ég er nýkomin úr skoðun hjá kvensjúkdómalækni og þar kom neikvætt þungunarpróf. Ég var líka skoðuð og allt virtist eðlilegt. Læknirinn sagði að líklegast hefði verið um þungun að ræða sem aldrei hefði orðið neitt meira úr. Mig langar að vita hvað það þýðir og hvað gæti hafa gerst. Gæti verið um tóman fóstursekk að ræða? Er möguleiki að lyf og áfengi í upphafi þungunar hafi haft þessi áhrif, þ.e að ekkert hafi orðið úr þessu.

Kær kveðja.

Sæl vertu og þakka þér fyrirspurnina.

Mér sýnist á þeim upplýsingum sem þú gefur mér að það hafi einfaldlega orðið fósturlát sem e.t.v. var dulið um tíma.  Það er ómögulegt að geta sér til um ástæður þess, t.d. er ómögulegt að segja núna hvort fóstursekkurinn var tómur eða ekki. Talið er að meirihluti fósturláta stafi af einhvers konar erfðafræðilegum þáttum, t.d. að eitthvað hafi farið úrskeiðis í myndun fóstursins sem verður til þess að það þroskast ekki eðlilega og er því ekki lífvænlegt, því verður fósturlát.  Við upphaf þungunar er ekki blóðtenging milli móður og fósturs þannig að áfengis- eða lyfjaneysla mjög snemma (t.d. áður en þú vissir að þú varst þunguð) hefur að öllum líkindum hverfandi áhrif.  Ég veit að það er erfitt að sætta sig við að það eru engin fullkomin svör við svona spurningum  en ég vona að sem flestar konur í þínum sporum láti ekki sektarkennd og samviskubit naga sig yfir einhverju sem þær hefðu eða hefðu ekki átt að gera.

Með von um að betur gangi næst.

Bestu kveðjur,

Inga Vala Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
11. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.