Spurt og svarað

12. maí 2013

Eftir fósturlát

Sælar og takk fyrir frábæran vef.
Mig langar að forvitnast um ástæður þess að læknar ráðleggja konum að hafa a.m.k. einu sinni blæðingar áður en þær reyna aftur við þungun eftir fósturlát. Er aukin áhætta ef kona verður ófrísk við fyrsta egglos eftir fósturlát? Ég missti þegar ég var komin 15 vikur á leið, er alveg heilbrigð en var ráðlagt að bíða 1 tíðahring með að reyna aftur.
Sæl
Ég vil byrja á að segja hve leitt mér þykir að heyra um ykkar missi.
Eftir fósturlát eða fóstureyðingu er ráðlagt að ekkert sé sett í leggöng í að minnsta kosti 2 vikur, það þýðir engar samfarir og engir tíðartappar. Þetta á við um bæði þegar notuð eru lyf eða gerð aðgerð til að tæma legið. Helsta ástæðan er sýkingarhætta en hún er mikil þegar legið og leghálsinn er enn „í sárum“ eftir þungunina.
Venjulega byrja blæðingar innan 6 vikna frá fósturláti eða fóstureyðingu og er þá talið að líkaminn hafi jafnað sig. Á þessum 6 vikum grær sárið þar sem fylgjan var í leginu, legið dregst saman í upprunalega stærð, leghálsinn lokar sér og þungunarhormón hverfa úr líkamanum.
Rannsóknir á því hvort stutt bil milli meðganga hafi áhrif á tíðni fósturláta eru misvísandi, sumar sýna fram á aukna tíðni með minna millibili en aðrar að stutt bil milli þungana hafi ekki áhrif heldur séu það aðrir þættir hjá konunni eða manninum.
Konur sem eru rh neikvæðar og gengnar lengra en 12 vikur þurfa að fá mótefnasprautu til að koma í veg fyrir mótefnamyndun ef fósturvefur hefur verið fjarlægður með aðgerð.
Vona að þetta skýri málið, gangi ykkur vel.Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. maí 2013

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.