Spurt og svarað

20. maí 2005

Einkenni fósturláts og biðin hrikaleg

Sæl ljósmóðir og takk fyrir alveg hreint frábæran vef. Hann reynist manni mjög vel í þessum miklu breytingum sem maður er að ganga í gegnum. Það sem brennur á mér er varðandi dulin fósturlát. Ég geng með mitt fyrsta barn, er komin rétt tæpar 7 vikur en hef nú þegar farið í snemmsónar (var þá komin 6 vikur) og allt leit eðlilega út. Sterkur og fínn hjartsláttur var kominn og allt efnilegt. Á 5 og 6 viku var ég með ofboðslega mikil einkenni, m.a. ógleði allan sólarhringinn en núna 7 vikuna hafa þessi einkenni alveg dottið niður og ég finn ekki neina breytingu á mér líkamlega. Ég veit að það er víst ekkert við þessu að gera nema að bíða og vona það besta. Það sem ég vildi þó spyrja um svona til að róa mig aðeins er hvort flest fósturlát séu ekki þannig að það fer ekkert fram hjá konunni að hún sé að missa? Þ.e. verkir og blæðingar? Það er þó mögulegt að fóstrið hætti að þroskast og deyji án þess að konan verði þess vör og án þess að það blæði, ekki satt? Er algengt að slíkt komi í ljós í 12 vikna sónarnum, þ.e. að fóstrið sé ekki til staðar eða þá látið? Manni finnst hálf kjánalegt að vera að panta tíma í sónar og mæðraskoðun þegar maður hefur engin einkenni nema það að fara ekki á blæðingar, frekar skrítin staða.
Með kærri kveðju
Jólakríli

--------------------------------------------------------

Komdu sæl og þakka þér fyrir hrósið.
Um það bil 15-20% allra þungana enda með fósturláti oftast mjög snemma á meðgöngunni.  Sjaldnast er einhver haldbær skýring til staðar.  Ég get vel skilið að þér finnist þetta vera mjög erfiður tími, sérstaklega þegar maður finnur engar breytingar á sér.  Reyndar er það mjög algengt að konur finni ofsalega mikil meðgöngueinkenni í upphafi meðgöngu en svo dvína einkennin eins og þú lýsir.  Þetta þarf samt ekki að þýða að ekki sé allt í lagi með fóstrið.  Dulið fósturlát er mjög lúmskt.  Oftast er konan með fullt af einkennum, ógleði, brjóstaspennu, þreytu og jafnvel fleiri einkenni.  Þess vegna dettur henni alls ekki í hug að fóstrið sé dáið.  Líkaminn virðist heldur ekki gera sér grein fyrir því og stundum getur það tekið dálítinn tíma fyrir líkamann að uppgötva það.  Helstu einkenni fósturláts eru blæðingar frá leggöngum, oftast blettablæðingar í byrjun sem aukast.  Einnig geta fylgt kviðverkir, jafnvel verkir í mjóbaki, túrverkir og eymsli yfir leginu.
Ég get ekki sagt að það sé algengt að fóstur sé dáið í fyrstu mæðraskoðun en það kemur nokkrum sinnum fyrir á ári.  Eins og þú segir sjálf er lítið annað að gera en að bíða og vona það besta.
Vonandi svarar þetta spurningum þínum.
Gangi þér vel
Kveðja

Málfríður Stefanía Þórðardóttir
Hjúkrunarfræðingur/ljósmóðir
20.05.2005

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.